Jóhanna gagnrýndi lækkun lánshlutfalls fyrir ári

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, rifjar á heimasíðu sinni upp gagnrýni Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, á það þegar lánshlutfall Íbúðalánasjóðs var lækkað úr 90% í 80% á síðasta ári og hámarkslán lækkað úr 18 milljónum í 17. Jóhanna var þá í stjórnarandstöðu. Lánshlutfallið var hækkað aftur í 90% í febrúar sl. og hámarkslán í 18 milljónir en í dag skrifaði Jóhanna undir reglugerð um að lækka hlutfallið í 80% á ný. Hámarkslán er óbreytt.

Jóhanna skrifaði í pistli á heimasíðu sinni í júní í fyrra, að linnulaus áróður bankanna gegn Íbúðarlánasjóði væri að bera árangur og það væri með ólíkindum að ríkisstjórnin telji það mikilvægt til að slá á verðbólguna að lækka lánshlutfall úr 90% í 80% og lækka hámarkslánin um 1 milljón. Bankarnir væru þeir einu sem græddu á þessari aðgerð, „enda trúi ég því að bankastjórar og eigendur bankanna hafi opnað kampavínsflösku og tekið bakföll af hlátri yfir því hvernig þeir eru búnir að plata stjórnvöld og hafa að fíflum."

Síðar í pistlinum skrifaði Jóhanna: „Þessi aðgerð er því illa ígrunduð og mun ekki hafa tilætluð áhrif til að slá á verðbólguna, en aftur á móti bitna harðast á þeim sem síst skyldi. Sú spurning er æpandi hvers vegna ríkisstjórnin og Seðlabanki beina ekki spjótum sínum í meira mæli að bönkunum í stað þess að leggja Íbúðalánasjóð sífellt í einelti."

„Nú er spurningin: hvað hefur breyst síðan í fyrra?" spyr Kristinn síðan.

Heimasíða Kristins

Heimasíða Jóhönnu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert