Segir veiðieftirlit Gæslunnar vera árás á öryggi sjómanna

Landhelgisgæsla Íslands ræðst á öryggi sjómanna með því að nota upplýsingar úr öryggistækjum til veiðieftirlits. Þetta segir Gísli Hermannsson, útgerðarmaður Gullbjargar sem staðinn var að meintum ólöglegum veiðum í síðasta mánuði.

Í reglum um skyndilokanir segir að Ríkisútvarpinu beri að lesa upp allar skyndilokanir á hverjum degi en Gísli segir, að það hafi farist fyrir daginn sem Gullbjörg var tekin í lokuðu hólfi.

Í opnu bréfi til Landhelgisgæslunnar og stjórnsýslunnar á Ísafirði segir Gísli: „Ég vil benda ykkur á að þið eruð að nota upplýsingar úr öryggistæki sem var skikkað um borð í báta til að reyna að klekkja á mönnum sem eru ekki skyggnir og hlusta ekki á útvarpssendingu sem aldrei var send út. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þið gerið þetta og er þetta árás á öryggi sjómanna og kerfi sem útgerðarmenn þessara báta borga reksturinn á. Gísli H. Hermannsson, útgerðamaður Gullbjargar ÍS 666 sem staðin var að meintum ólöglegum veiðum á Deildargrunni þann 19.06. 2007.“

Að sögn Gísla eru yfirvöld að leita upplýsinga í svokölluðu STK-tæki, sem sér um sjálfvirka tilkynningaskyldu íslenskra fiskiskipa. Sjálfvirka tilkynningaskyldan er hugsuð til að tryggja öryggi íslenskra sjómanna en ekki til eftirlits með flotanum. Gísli segir að málið sé enn til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert