Fréttaþjónusta almennings á fréttavef Morgunblaðsins

Frá og með deginum í dag gefst notendum mbl.is, netútgáfu Morgunblaðsins, kostur á að leggja lið sitt við fréttaöflun og senda ritstjórn mbl.is, ýmist viðbótarupplýsingar við fréttir, sem birzt hafa á fréttavefnum eða nýjar fréttir, sem sendandi kann að búa yfir. Þessar fréttir og fréttaupplýsingar verða yfirfarnar á ritstjórn mbl.is og sama krafa gerð um áreiðanleika og gert er á ritstjórnum Morgunblaðsins og mbl.is, áður en þær eru sendar út.

Slík fréttaþjónusta almennings ryður sér nú til rúms víða um heim og kallast á ensku "citizen journalism" eða fréttaþjónusta almennings. Tilkoma netmiðla hefur skapað nýja möguleika á að almenningur gerist þátttakandi í hinni daglegu fjölmiðlun, sem setur mark sitt á samfélög nútímans.

Morgunblaðið sjálft er fyrir löngu orðið meginvettvangur landsmanna fyrir skoðanaskipti þeirra í milli. Moggabloggið svonefnda hefur orðið mjög vinsælt á mbl.is, en þar lýsa bloggarar skoðunum sínum á atburðum líðandi stundar. Nú opnar mbl.is fyrir þátttöku almennings í fréttaþjónustu og gera má ráð fyrir að helztu fréttir, sem þannig berast birtist einnig með einum eða öðrum hætti í Morgunblaðinu.

Fyrir neðan fréttir á mbl.is birtist nú tengill, sem vísar á nýjan glugga á vefnum. Þar er hægt að skrifa upplýsingar, sem lesendur búa yfir um viðkomandi frétt, eða senda myndir, sem fólk hefur tekið og vill deila með öðrum lesendum. Þessar upplýsingar eru sendar í tölvupósti til ritstjórnar mbl.is, sem vinnur úr þeim. Birtist myndirnar á vefnum verða þær merktar ljósmyndara. Ekki er greitt fyrir birtingu efnis eða mynda, sem send eru með þessum hætti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert