Veiddi skötusel í dorgveiðikeppninni

Auðunn Árni var stoltur af afla sínum.
Auðunn Árni var stoltur af afla sínum. mbl.is/Ólafur Bernódusson.

Eitt af atriðunum á kántrýdögum á Skagaströnd er dorgveiðikeppni við höfnina. Er þetta eitt af vinsælli atriðum kántrýdaga því í keppninni er ekkert kynslóðabil og allir standa jafnfætis.

Að þessu sinni fékk ungur veiðimaður, Auðunn Árni Þrastarson, afar óvenjulegan dorgveiðiafla því innan um þorsktitti og marhnúta dró hann lítinn skötusel. Er það í fyrsta sinn sem skötuselur veiðist í höfninni á Skagaströnd svo vitað sé.

Skötuselur er sjaldgæfur fiskur við Norðurland og kjörsvæði hans er í mun dýpri sjó en í höfninni á Skagaströnd. Þannig stendur í bókinni Fiskar og fiskveiðar sem Mál og menning gaf út 1999 að: „ Við Ísland veiðist skötuselur með öðrum fiskum undan allri suðurströndinni en einnig verður hans vart allt til Vestfjarða“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert