Torfusamtökin harma niðurrif á Laugavegi

Laugavegur 4-6
Laugavegur 4-6 mbl.is/Ásdís

Stjórn Torfusamtakanna harmar þá niðurstöðu Skipulagsráðs Reykjavíkur að heimila niðurrif tveggja elstu húsanna við Laugaveg, á lóðunum nr. 4 og 6, og samþykkja jafnframt nýbyggingu, sem vegna hæðar og umfangs, samrýmist ekki mælikvarða og götumynd þessa elsta hluta Laugavegar.

Segir í tilkynningu frá samtökunum að hægur vandi hefði verið að prjóna við gömlu húsin og tengja þau nýrri uppbyggingu á reitnum með farsælum hætti og sameiginlega hagsmuni götunnar að leiðarljósi.

„Nýja byggingin er óheppilegt fordæmi fyrir þróun Laugavegarins. Hún mun standa í elsta hluta götunnar, milli Skólavörðustígs og Bergstaðastræti, þar sem enn má sjá einkenni 19. aldar í byggðinni. Vesturendi byggingarinnar tekur lítið tillit til friðaðs húss, Laugavegar 2, sem nýlega hefur verið gert upp til mikillar prýði fyrir miðborgina. Gert er ráð fyrir fjögurra hæða húsi sunnan götunnar, einmitt þar sem kaupmenn og allir aðrir hafa lagt áherslu á að halda byggðinni lágri vegna sólarljóss í götunni. Auðveldlega hefði mátt samræma sjónarmið verslunar og húsverndar, t.d. með því að lyfta gömlu húsunum um eina hæð og bæta undir þau vönduðu verslunarrými, eins og hefð er fyrir við þessa götu. Þannig hefði verið unnt að ná fram yfirlýstum markmiðum um að verndun og uppbygging haldist í hendur, Laugavegur eflist sem verslunargata, en jafnframt væri haldið í mælikvarða og sögulegt yfirbragð elsta hluta hennar.

Stjórn Torfusamtakanna harmar það enn fremur hversu lítið hefur farið fyrir kynningu á sjálfri hönnun nýbyggingarinnar áður en heimild var veitt fyrir niðurrifi. Að mati samtakanna hafa borgaryfirvöld gert mikil mistök með því að leyfa allt of mikið byggingarmagn á þessum reit, meira en samhengið þolir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert