Lítið um lundapysjur í Eyjum

Systkinin Kristín Edda Valsdóttir, 10 ára og Einar Örn Valsson, …
Systkinin Kristín Edda Valsdóttir, 10 ára og Einar Örn Valsson, 3 ára, með pysju, sem Tóti í Geisla lét þau fá til að sleppa. Pysjan vó 264 grömm. mbl.is/Sigurgeir

Aðeins fjórar lundapysjur hafa verið vigtaðar í þessum mánuði í Vestmannaeyjum. Er ljóst að pysjutímabilið verður með svipuðu móti og það hefur verið undanfarin þrjú ár, en ætisskortur í sjónum hefur haft áhrif á varp lundans líkt og hjá fleiri sjófuglum.

Að sögn Kristjáns Egilssonar, forstöðumanns Náttúrugripasafnsins í Vestmannaeyjum, ætti hátindur pysjutímabilsins að vera núna, þ.e. seinni hluta ágústmánaðar. Hann segir að ef allt væri með eðlilegu móti myndu á bilinu 5000-6000 lundapysjur koma í þessum mánuði í bæinn.

Kristján segir að lundinn hafi orpið seinna í ár líkt og síðustu ár. „Það verður bæði seint og lítið sem kemur af pysju,“ segir Kristján og bætir því við að ef meira komi af pysju þá megi búast við því í byrjun september. „Það verður hinsvegar aldrei mikið því lundinn fer svo að fara [...] Í byrjun september þá fer hann bara, en þá er tímaklukkan komin á hann að koma sér í burtu.“

Hann segir þær pysjur sem hafi verið vigtaðar líti vel út. Þær vega á bilinu 250 - 260 grömm, sem sé ágætt. Hefð er fyrir því að börn á öllum aldri vigti og skrái pysjurnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert