Kópavogur samþykkir aðgerðaáætlun í leikskólamálum

Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt aðgerðaáætlun leikskólanefndar í því skyni að auka stöðugleika í starfsmannahaldi, laða starfsfólk að leikskólum bæjarfélagsins og auka fagþekkingu í leikskólum Kópavogsbæjar.

Aðgerðaáætlunin var kynnt á blaðamannafundi í dag. Í henni felst m.a:

  • Aukin tækifæri starfsmanna til náms í leikskólafræðum og aukið faglegt öryggi í starfi.
  • Stjórnendum gert kleift að sækja stjórnunarnám sem er sérsniðið að þörfum þeirra.
  • Bætta vinnuaðstöðu og námskeið sem miða m.a. að því að draga úr streitu.
  • Kjarabætur, s.s. auknar greiðslur vegna kostnaðar í starfi og námsstyrkir.
  • Tilraunaverkefni á tveimur leikskólum með aukið fjárhagslegt og faglegt sjálfstæði að leiðarljósi.
  • Erlendum starfsmönnum verði boðið íslenskunámskeið á vegum bæjarins.

Auk þessa gekk Kópavogsbær í maí 2007 frá samningum við leikskólakennara um TV-einingar sem eru reglur um tímabundin viðbótarlaun leikskólakennara. Þessa dagana er verið að úthluta TV-einingum í annað sinn. Kópavogsbær jók þá einnig framlög til leikskóla, annars vegar í þeim tilgangi að auka fjárhagslegt sjálfstæði leikskólanna, hins vegar til að mæta hugsanlegum áföllum, s.s. miklum veikindum og forföllum.

Kópavogsbær hóf í nóvember sl. heimgreiðslur til foreldra barna undir 2ja ára aldri. Bæjarráð Kópavogs samþykkti í gær að fella niður aldursmörkin og framlengja heimgreiðslur til þess tíma að börn fá inni á leikskóla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert