„Veðurstofan er góður vinnustaður"

Veðurstofan segir frétt um einelti ranga.
Veðurstofan segir frétt um einelti ranga. mbl.is/Ómar

Veðurstofa Íslands sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fréttaflutningur um einelti innan stofnunarinnar í fréttatíma Ríkissjónvarpsins síðast liðinn laugardag var harmaður. Í yfirlýsingunni kemur fram að rangt hafi verið farið með staðreyndir í málinu og að um persónuleg og erfið mál sé að ræða og vandasamt sé að fjalla um slíkt í fjölmiðlum þar sem það geti hindrað úrlausn málsins.

Yfirlýsingin frá Veðurstofu Íslands er birt hér í heild sinni:

- Vegna fréttar í Ríkissjónvarpinu þann 10. nóvember 2007
Laugardaginn 10. nóvember fjallaði fréttastofa sjónvarps enn einu sinni um starfsmannamál á Veðurstofu Íslands. Í fréttinni voru ýmsar mis- og rangfærslur, sem ástæða er til að leiðrétta og fyrirbyggja þannig frekari misskilning. Þá mótmælir Veðurstofan harðlega framsetningu fréttastofunnar í málinu, allt frá því að fréttaflutningur af því hófst í ágúst sl.

Staðreyndin er sú að Veðurstofa Íslands er góður vinnustaður, þar sem fjölmargir sérmenntaðir starfsmenn leggja sitt af mörkum við að veita landsmönnum öllum afar mikilvæga þjónustu. Samskiptavandamál eru fjarri því að vera stórfellt vandamál hjá Veðurstofu Íslands. Í könnunum sem gerðar hafa verið um samskiptavandamál hjá ríkisstofnunum hefur Veðurstofan verið í meðallagi.

Fullyrt var hjá fréttastofu Sjónvarps á laugardaginn að 28 prósent starfsmanna hefðu orðið fyrir einelti á síðasta ári. Það er rangt. Hið rétta er að 12 starfsmenn af tæplega 100 á stofnuninni töldu sig hafa einhvern tíma – á óskilgreindu tímabili– orðið fyrir einelti.

Í fréttaflutningi Ríkissjónvarpsins á laugardaginn var eins og áður reynt að gera aðgerðir stjórnenda til lausnar á erfiðum samskiptamálum tortryggilegar og látið að því liggja að draga mætti réttmæti þeirra í efa. Slíkur fréttaflutningur er ósanngjarn og til þess eins fallinn að torvelda úrlausn mála.

Hafa verður í huga að mál af þessu tagi eru afar viðkvæm, vandmeðfarin og persónuleg. Því verður að gera þá kröfu að allur fréttaflutningur sé vandaður að svo miklu leyti sem eðlilegt er að fjalla um svo persónuleg mál í fjölmiðlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert