Sætir farbanni vegna skattrannsóknar

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að kona, sem skráð er stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi fyrirtækis, sem sætir lögreglurannsókn vegna meintra skatta- og bókhaldsbrota, sæti farbanni til 21. desember.

Í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, kemur m.a. fram að konan sé grunuð um vanrækslu á færslu bókhalds og varðveislu bókhaldsgagna, vanrækslu á skilum skattframtals og vanframtaldar rekstrartekjur, skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum og fleiri brotum á lögum um virðisaukaskatt og vanræksli á að standa skil á greinargerðum um reiknað endurgjald og skilagreinum staðgreiðslu opinberra gjalda vegna launagreiðslna.

Fram kemur í úrskurðinum, að rannsókn málsins hafi verið sett í forgang hjá ríkislögreglustjóra. Grunsemdir liggi fyrir um að konan og fjölskylda hennar muni hugsanlega fara af landi brott á næstunni og var því krafist farbanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert