Dregur úr fasteignakaupum

Íbúðalánasjóður hækkaði vexti á íbúðalánum í gær um 0,2% í kjölfar útboðs íbúðabréfa sjóðsins. Vextirnir eru nú 5,75% og 5,50% með uppgreiðsluþóknun.

Minni sala á fasteignum var í nóvember en mánuðinn áður og voru 20% færri kaupsamningar vegna fasteigna gerðir á höfuðborgarsvæðinu, eða 768 samningar á móti 956, samkvæmt upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins. Það hafa ekki færri keypt sér fasteign á höfuðborgarsvæðinu síðan í febrúar á þessu ári.

Hallur Magnússon, sviðsstjóri hjá þróunarsviði Íbúðalánasjóðs, segir að aukin eftirspurn sé eftir lánum hjá sjóðnum í kjölfar vaxtahækkana bankanna og sjóðurinn finni ekki fyrir því að minni sala sé á fasteignum. Hins vegar ætti mikil vaxtahækkun að draga úr eftirspurn eftir lánum, til lengri tíma litið.

„Menn mega þó ekki gleyma því að vextir á íbúðalánum hafa oft verið hærri. Það er ekki lengra síðan en 2002 að raunvextir voru um 6 prósent," segir Hallur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert