Vatnið umlukti bæina

Bóndinn á Auðsholti sótti póstinn á dráttarvél í gær.
Bóndinn á Auðsholti sótti póstinn á dráttarvél í gær. mbl.is/Sigurður

Ófært var nema á bát upp að bænum Ferjukoti í Borgarfirði í gærdag vegna mikilla vatnavaxta í Hvítá, og aðeins var hægt að komast að bænum Auðsholti í Árnessýslu á mjög stórum bílum eða dráttarvélum. Talið er að vatnavextirnir hafi náð hámarki síðdegis í gær og þrátt fyrir að spáð sé rigningu í dag muni vatnshæðin minnka.

Þorkell Fjeldsted bóndi í Ferjukoti sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að hann merkti það þegar að vatnið hefði sjatnað. Það náði þó enn yfir veginn og torfært væri að komast að bænum. Hann sagði vatnshæðina þó litla núna miðað við oft áður en átti vart orð yfir miklar breytingar í veðurfari að undanförnu. „Annaðhvort fýkur maður til eða flýtur.“

Vegurinn upp að bænum hefur oft farið illa í flóðum en Þorkell hafði ekki miklar áhyggjur af því. Hann yrði þá bara lagaður til í dag með gröfum.

Á bænum Auðsholti vöknuðu íbúar við það í gærmorgun að bærinn var umlukinn vatni. Krakkarnir á bænum komust því ekki á litlu-jólin, þeim til mikillar armæðu, og pósturinn sneri fljótt við þegar hann sá í hvað stefndi.

Steinar Halldórsson íbúi á Auðsholti sagði það ótrúlega tilviljun að fyrir nákvæmlega ári, eða að kvöldi 19. desember, flæddi einnig. Það flóð var hins vegar töluvert meira og náð rúmlega þremur metrum þar sem dýpst mældist. Í gær mældist vatnið einn og hálfur metri yfir veginum.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi í gærkvöldi var talið að vatnavextirnir hefðu náð hámarki og myndu ekki valda frekari usla. Enginn viðbúnaður var því vegna flóða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert