Stolið frá lögreglunni

mbl.is/Júlíus

Óprúttinn aðili stal svokölluðu díóðuljósi frá lögreglunni á Suðurnesjum í gærkvöldi er lögreglumenn voru að störfum á Grindavíkurvegi þar sem umferðarslys hafði orðið.

Lögreglan notaði ljósin á vettvangi í gær til að vara vegfarendur við slysinu, en ljósin voru lögð á Grindavíkurveg. Þar hafði ökumaður misst stjórn á bifreið sinni og hafnað utan vegar. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á Landsspítalann við Fossvog til skoðunar.  Hann er ekki talinn mikið slasaður.  Tveir farþegar í bifreiðinni voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar og fóru þeir til síns heima að henni lokinni.

Þegar lögreglan var að taka saman ljósin var búið að stela einu ljósinu af vettvangi.  Að sögn lögreglu eru þessi ljós mjög sérstök, flöt með blá blikkandi díóðuljósum.  Þau eru mjög sterk þannig að óhætt er að aka yfir þau.  Þau eru geymd í hleðslutösku í lögreglubílum og eru gagnslaus þeim sem hefur ekki slíka tösku. 

Lögreglan biður þann sem tók ljósið að koma því til lögreglunnar á Suðurnesjum því hér er um að ræða mjög mikilvægan öryggisbúnað bæði fyrir vegfarendur og lögreglumenn á vettvangi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert