Samræmdar reglur um þvagsýnatöku í smíðum

Drög að reglugerð um töku sýna og rannsókn vegna aksturs undir áhrifum vímuefna eru nú til umsagnar hjá samgönguráðuneytinu.

Síðastliðið sumar var í þjóðfélaginu og á Alþingi nokkuð rætt um sýnatökur sem þessar en kona ein kærði lögregluna á Selfossi til Ríkissaksóknara vegna þess hvernig valdi var beitt til að taka úr henni þvagsýni. Samkvæmt lögum er heimilt að beita valdi til að ná þvagsýni vegna rannsókna mála og var í fyrrnefndu tilfelli þræddur þvagleggur í konuna. Lét þáverandi formaður Læknafélagsins þá hafa eftir sér að konan hefði verið beitt ofbeldi. Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, kom að gerð draganna og segir hann mikilvægt að nú verði til samræmdar reglur um framkvæmd sýnatökunnar. „Þetta ætti ekki að hafa í för með sér neinar breytingar,“ segir Ólafur.

Í drögunum er lögð áhersla á að meðalhófi skuli beitt við sýnatöku. Lögregla mun geta annast töku öndunar-, svita- og munnvatnssýnis en aðeins læknum, hjúkrunarfræðingum eða lífeindafræðingum verður heimilt að taka blóð- eða þvagsýni. Ökumanni verður þó heimilt að veita þvagsýni án milligöngu heilbrigðisstarfsfólks ef öruggt er að sýnið sé frá ökumanni. Ekki mega aðrir vera viðstaddir sýnatöku en nauðsyn ber til og gæta ber þess að valdi sé ekki beitt nema öryggissjónarmið krefjist þess. Lögreglumaður sem viðstaddur er verður að vera af sama kyni og ökumaður. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert