Tveir handteknir í strokumáli

Lögreglan hefur handtekið tvo menn sem eru grunaðir um að hafa aðstoðað Annþór Kristján Karlsson sem strauk úr fangageymslu lögreglunnar við Hverfisgötu í Reykjavík í morgun.

Að sögn lögreglu voru mennirnir handteknir á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag. Ekkert hefur enn spurst til Annþórs, en lögreglan rannsakar allar vísbendingar.

Annþór, sem er 32ja ára, er í gæsluvarðhaldi í tengslum við fíkniefnamál, en hann hafði komið inn til vistunar í fangageymslunni í gær að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum og fíkniefnadeildar ríkislögreglustjóra. Samkvæmt upplýsingum lögreglu mun Annþór hafa brotist inn í læsta geymslu, komist yfir kaðalspotta og brotið sér leið út um glugga sem er á annarri hæð hússins. Mennirnir sem voru handteknir eru grunaðir um að hafa aðstoðað Annþór eftir að hann komst út um gluggann. 

Þess má geta að það getur varðað allt að tveggja ára fangelsi að aðstoða fanga við að flýja úr refsivist.

Aðspurð segir lögreglan að ekki sé vitað af hverju Annþór hafi flúið úr refsivistinni. 

Að sögn lögreglu var Annþór, sem er 186 sm á hæð, klæddur í hvítan bol, bláar gallabuxur og er talinn vera í íþróttaskóm. Hann er þrekvaxinn og með ljóst hár.  Annþór er talinn hættulegur. Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir hans eru beðnir að hafa samband við lögregluna í síma 800-1000 eða 420-1800.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert