Sjómenn alvarlega hugsi hvort þeir geta haldið áfram

„Þetta er auðvitað hreinn skellur launalega fyrir þá sem í þessu starfa,“ segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, um áhrif þess að loðnuveiðar hafa verið stöðvaðar. Aðspurður segir Sævar að gera megi ráð fyrir að 400-500 manns á um 40 skipum verði fyrir verulegum tekjumissi vegna þessa. Talað hefur verið um að sjómenn verði fyrir allt að milljón króna tekjutapi á þessu ári, enda janúar og febrúar bestu aflamánuðirnir.

„Þetta hefur þau áhrif að menn fara alvarlega að velta fyrir sér hvort þeir geta yfirhöfuð starfað í greininni, því sjómennskan er nú einu sinni þannig að þú vinnur ekki í henni á daginn og í einhverju öðru á kvöldin eins og gert er í mörgum öðrum atvinnugreinum.“

Í ályktun sem stjórn Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) sendi frá sér fyrir helgi er skorað á stjórnvöld að koma til móts við þá sjómenn sem verða fyrir tekjuskerðingu vegna nýlegra stjórnvaldsaðgerða. Bent er á að mótvægisaðgerðir sem kæmu sjómönnum til góða væru að hækka sjómannafrádrátt og greiða sjómönnum laun til að stunda öryggisfræðslu og sækja öryggisnámskeið, enda löngu tímabært að lyfta grettistaki í öryggismálum.

„Ég er mjög sammála þessum hugmyndum, hins vegar lifa menn ekki á öryggisfræðslu einni saman,“ segir Sævar og tekur fram að þessar hugmyndir geti nýst til skamms tíma, en til lengri tíma litið þurfi meira að koma til. Sjálfur segist hann vilja sjá að leyfðar verði auknar veiðar á sumargotssíldinni á Íslandsmiðum. Með því móti gætu sjómenn haldið veiðum áfram í því millibilsástandi sem ríki þar til loðnan komi aftur í leitirnar. Minnir Sævar á að áður hafi komið ár þar sem enga loðnu var að finna. „Það var ekkert veitt 1983 og 1992, ef ég man rétt. Tveimur árum seinna voru menn að veiða milljón tonn. Þannig að auðvitað vonar maður að eitthvað svoleiðis lagað gerist,“ segir Sævar og kallar eftir markvissari aðgerðum stjórnvalda sem nýtist sjómönnum beint enda séu sjómenn þeir sem verði fyrir mestum skellinum.

Í hnotskurn
» Loðnuveiðar voru stöðvaðar sl. fimmtudag þar sem ekki hafði tekist að mæla nægilega mikið af loðnu til að standa undir þeirri veiðireglu Hafrannsóknastofnunar að tryggja nægilega hrygningu nú í vetur. Til þess þarf 400.000 tonn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert