Veruleg vaxtahækkun við endurskoðun 2009

Vextir verðtryggðra húsnæðislána bankanna sem veitt voru haustið 2004 verða til fimm ára vaxtaendurskoðunar annað haust, haustið 2009, og gætu þá hækkað úr 4,15% vöxtum í 7,80%, að mati Ingólfs H. Ingólfssonar fjármálaráðgjafa. Það þýðir að mánaðarleg endurgreiðsla af 20 milljóna króna láni til 40 ára hækkar úr 100 þúsund kr. í 159 þúsund kr. eða um 59%.

„Það má líkja íbúðalánum með endurskoðunarákvæði við lán með breytilegum vöxtum,“ segir Ingólfur og bætir við að hann sé þegar farinn að sjá merki þess að slík lán valdi fólki erfiðleikum. „Verðtryggðir breytilegir vextir eru eiginlega út í hött. Ef þú hugsar út í það, þá erum við að taka 40 ára lán með endurskoðunarákvæði eftir 5 ár. Það þýðir að verðtryggðu vextirnir eru ekki bundnir nema í þessi fimm ár. Verðtryggingin er hins vegar þegar búin að tryggja lánveitandanum að hann fái ákveðna raunvexti, sama þó að himinn og jörð hrynji í kringum hann.“

Ingólfur segir borga sig að forðast fasteignakaup við núverandi aðstæður og það sé betra fyrir ungt fólk sem sé að byrja sinn búskap að vera í leigu. „Fólk er ekkert að kasta peningum sínum á glæ þótt það búi í leiguhúsnæði fyrstu 3-5 árin. Með þeim verðtryggðu fasteignalánum sem eru á markaðnum í dag verður eignamyndunin svo hæg að hún er engin fyrstu árin. Þvert á móti má segja að menn séu að tapa peningum þessi fyrstu ár.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert