Stóra salernismálið enn óleyst

Vísbending í stóra salernismálinu reyndist vera aprílgabb.
Vísbending í stóra salernismálinu reyndist vera aprílgabb. mbl.is/Golli

Lögreglan á Höfn í Hornafirði lét gabbast í dag og hljóp fyrsta apríl er tveir vaskir lögregluþjónar stukku til að leysa stóra salernismálið. Þeir voru boðaðir á veitingastaðinn Víkina þar sem undanfarnar vikur hefur einhver óprúttinn glæpamaður gert það að leik sínum að mölva klósett í tvígang.

Lögreglumaður á vakt sem ekki vildi láta nafns síns getið sagði að unnusta hans vinni á staðnum og hún hafi beðið hann að koma ef ekkert annað lægi fyrir því staðurinn væri fullur af fólki að horfa á kappleik og líklegast væri klósettbrjóturinn ennþá á staðnum.

Lögreglumaðurinn vaski greip félaga með sér í útkallið, myndavél og allan hugsanlegan búnað til að kljást við klósettþrjóta en þegar á vettvang glæpsins var komið mættu þeim hlátrasköll og ábendingar um mánaðardaginn.

Lögreglumaðurinn sagðist bara hafa tekið glensinu af stakri ró og hlegið með.

Þess má geta að stóra salernismálið er enn óleyst. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka