Ólympíueldurinn í Keflavík

Þessa mynd tók Hilmar Bragi Bárðarson klukkan 2 í nótt …
Þessa mynd tók Hilmar Bragi Bárðarson klukkan 2 í nótt er vélin var á leið til Bandaríkjanna. Ljósmynd Víkurfréttir

Ólympíueldurinn kom við á Flugstöð Leifs Eiríkssonar á leið sinni vestur um haf í nótt. Fregnir af áætlaðri komu hans hingað höfðu farið mjög hljótt því mótmæli gegn mannréttindabrotum Kínverja í Tíbet hafa valdið miklum töfum á ferð kyndilsins um London og París.

Ljósmyndari Víkurfrétta fékk ekki að  nálgast vélina. Talið er að vopnaður vörður hafi verið um kyndilinn í flugvélinni, sem er af gerðinni Airbus A330-200.

Ólympíueldurinn kom til Keflavíkurflugvallar frá París og héðan var ferðinni heitið í beinu flugi til San Francisco. Upphaflega stóð til að vélin staldraði við hér í klukkustund en heimsóknin varð um tveir og hálfur tími.

Mótmælin hafin í San Francisco 

Yfirvöld í Peking hafa sagt að engin öfl fái stöðvað för ólympíukyndilsins um heiminn en mótmælin í San Francico eru þegar hafin.

Samkvæmt fréttavef BBC voru sjö mótmælendur handteknir þar í borg fyrir að hengja borða með slagorðum gegn Kína á kaplana á Golden Gate brúnna en skammt er þangað til að hlaupið verður með eldinn um götur borgarinnar.

Þrisvar var slökkt á kyndlinum í París og hann færður inn í strætisvagn til að forða honum frá mótmælendum en samkvæmt BBC er sjálfum ólympíueldinum haldið lifandi í sérstakri öryggislugt.

Eldurinn var kveiktur í Ólympíu á Grikklandi þann 24 mars og mun hann ferðast um 20 lönd áður en farið verður með hann á opnunarhátíðina í Peking þann 8. ágúst næst komandi.

Kínverska ríkissjónvarpið hefur sagt frá því að einungis örfáir aðskilnaðarsinnar hafi mótmælt för kyndilsins um London og París.

Hillary Clinton sem berst nú um frambjóðendasæti bandaríska demókrataflokksins í komandi forsetakosningum hefur hvatt forsetann, George W. Bush til að hunsa opnunarhátíð Ólympíuleikanna ef Kína bætir sig ekki í mannréttindamálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert