„Auðvelt að vera vitur eftir á"

Alvarlegt umferðarslys varð á Reykjanesbraut í morgun.
Alvarlegt umferðarslys varð á Reykjanesbraut í morgun. mynd/Víkurfréttir

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir Vegagerðina ekki vera að reyna að firra sig ábyrgð á því sem aflaga hafi farið við framkvæmdir á Reykjanesbraut. Aðstæður sem þar hafi myndast hafi hins vegar ekki verið fyrirsjáanlegar og að alltaf sé auðvelt að vera vitur eftir á. 

G. Pétur sagði í samtali við blaðamann mbl.is í dag að Vegagerðin hafi vissulega borið ábyrgð sem eftirlitsaðili á þeim tíma sem Jarðvélar ehf hafi unnið að framkvæmdum á svæðinu en að á þeim tíma hafi menn viljað gefa framkvæmdaaðilum svigrúm. Aldrei hafi t.d. staðið til að þrjú framhjáhlaup yrðu opin á svæðinu í einu. Sú staða hafi komið upp þar sem framkvæmdir hafi verið hafnar á einum stað áður en framkvæmdum lauk á öðrum. Þar hafi framkvæmdir síðan tafist með þessum afleiðingum.

„Frá því Vegagerðin tók við svæðinu hefur verið unnið að því að bæta aðstæður m.a. með því að fjarlægja steypuklumpa og létta þannig svæðið," sagði hann. „Við höfum líka bætt merkingar og varað vegfarendur ítrekað við því að svæðið gæti verið varhugavert."

Spurður um það hvort ekki hefði átt að grípa til róttækari aðgerða fyrr sagði hann að það megi vel vera. „Það er hins vegar svo að  þær aðgerðir sem við höfum nú ákveðið að ráðast í hafa ákveðin óþægindi í för með sér. Í framhaldi af þeim verður framúrakstur ekki mögulegur á 7 til 8 km kafla og það mun hægja mjög á allri umferð. Það er nú oft þannig að það sem maður vinnur á einn veg tapar maður á öðrum," sagði hann. „Við munum hins vegar skoða það í framhaldinu hvort þörf sé á strangari reglum eða breytingum á vinnulagi þar sem erfiðar og óvenjulegar aðstæður myndast."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert