Segir bæjarstjórann fara rangt með

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, vill koma eftirfarandi á framfæri vegna viðtals við Lúðvík Geirsson, bæjarstjóra í Hafnarfirði í sunnudagsblaði Morgunblaðsins: „Ég er mjög undrandi á því að bæjarstjórinn segi að taka þurfi lán til að fjármagna framkvæmdir í bænum og að lántakan sé í samræmi við langtímaáætlun. Við afgreiðslu á langtímaáætlun bæjarins 1. apríl lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna fram bókanir og vildu fresta afgreiðslu áætlunarinnar þar sem í henni væru ekki skýrar upplýsingar um fyrirhugaða lántöku. Ég vek einnig athygli á að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2008, sem samþykkt var í desember síðastliðnum, er skýrt kveðið á um að ekki þurfi að koma til lántöku þrátt fyrir miklar fjárfestingar og framkvæmdir á árinu. En svo kom það fram á fundi bæjarráðs í mars að taka þyrfti lán til að eiga fyrir útgjöldum. Bæjarstjórinn virðist ekki viðurkenna það í dag.

Að mínu mati hefur áætlanagerð og fjármálastjórnun meirihluta Samfylkingarinnar einfaldlega beðið skipbrot.

Bæjarstjórinn lýsir því einnig hve mikla heimavinnu þurfti að vinna innan Samfylkingarinnar til að meirihlutinn gæti tekið ákvörðun um sölu á hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja til OR. Það er einmitt málið og segir allt um ákvarðanafælni meirihlutans í Hafnarfirði, því ekki þurftu sveitarstjórnirnar í Grindavík, Sandgerði, Vogum og Garði langan tíma til að taka tilboðum í þeirra hluti í HS. Þau sveitarfélög ákváðu strax að selja þegar ljóst var hve hátt verð var í boði. Bæjarstjórinn segir einnig í viðtalinu að auðvelt sé að koma eftir á og segja að nær hefði verið að selja sl. haust. Það erum við Sjálfstæðismenn alls ekki að gera, því við lögðum fram formlega tillögu á fundi bæjarstjórnar 4. september sl. um að selja skyldi hlutinn strax. Við það væri bæjarfélagið þegar búið að hagnast um a.m.k. 1,3 milljarða króna eins og komið hefur fram og eru einfaldlega staðreyndir, en ekki leikur að tölum. Umræðustjórnmál Samfylkingarinnar eru að reynast Hafnfirðingum dýrkeypt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert