Yfirlæknir hættir vegna algjörs trúnaðarbrests

Ómar Ragnarsson, yfirlæknir á Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi, hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu þegar fjögurra mánaða ráðningarsamningur sem hann gerði nú fyrir mánaðamót rennur út í haust, vegna algjörs trúnaðarbrests sem hafi orðið milli starfsmanna og forstjóra stofnunarinnar.

Frá því var greint í Morgunblaðinu í gær að læknar á stofnuninni hefðu fallist á að halda áfram störfum eftir að breytingar sem átti að gera á kjörum og vaktafyrirkomulagi læknanna voru dregnar til baka.

Klaufaleg samskipti

Ómar Ragnarsson yfirlæknir, sem unnið hefur á Heilbrigðisstofnuninni Blönduósi í tæp 15 ár, dró til baka uppsögn sína ásamt öðrum læknum en gerði ráðningarsamning einungis til fjögurra mánaða. Hann segir ástæðuna það ósætti og þá samstarfsörðugleika sem verið hafi á heilbrigðisstofnuninni í langan tíma. Stirð samskipti hafi verið milli forstjóra stofnunarinnar annars vegar og lækna og annarra starfsmanna hins vegar og sé trúnaðarbrestur mikill milli þessara aðila.

Til stendur að sameina heilbrigðisstofnanirnar á Blönduósi og Sauðárkróki og segir Ómar starfsfólki hafa verið sagt að nýr forstjóri tæki til starfa á sameinaðri stofnun. Þrátt fyrir það treysti hann sér ekki til að halda áfram störfum. „Það eru búnir að vera svo langvarandi örðugleikar og í raun er framkvæmdastjórnin í mínum huga óstarfhæf.“

Spurður hvort kjaramálin hafi valdið þessum örðugleikum segir Ómar það hafa verið kornið sem fyllti mælinn. Stóð til að kjör læknanna yrðu verri með aðeins mánaðarfyrirvara auk þess að breyta vinnufyrirkomulaginu. Margt í samskiptunum við forstjórann hefði verið klaufalegt og yfirgengilegt, að mati Ómars, og nefnir hann sem dæmi að lítið samráð hafi verið haft við menn. Þá hafi forstjórinn að auki vefengt læknisvottorð og haft afskipti af flutningi sjúklinga sem Ómar segir að hafi ekki verið búandi við.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert