Sundlaug Kópavogs opnuð á ný

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Í dag, á afmælisdegi Kópavogsbæjar, opnar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra ný sundlaugarmannvirki í Sundlaug Kópavogs við Borgarholtsbraut. Hátíðardagskrá hefst kl. 15.00 með því að Skólahljómsveit Kópavogs leikur, þá blessar séra Ægir Sigurgeirsson mannvirkin og að loknum ávörpum Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra og Ómars Stefánssonar, formanns bæjarráðs, opnar menntamálaráðherra hin nýju sundlaugarmannvirki formlega.

Loks er atriði frá Sunddeild Breiðabliks og svo er almenningi boðið að skoða mannvirkin til kl. 18.00.
 
Stóra sundlaugin er 50 m keppnislaug, svo eru tvær innilaugar, 25 m keppnislaug og 10 m kennslulaug þar sem kennt verður ungbarnasund. Bætt hefur verið við heitum pottum, vaðlaugum, rennibrautum og leiktækjum. Í kjallara nýbyggingarinnar verður líkamsræktaraðstaðan og á efri hæð búningsklefar og útiklefar. Síðast en ekki síst hefur verið byggt nýtt gufubað.
 
Áhersla er lögð á að allt öryggiskerfi laugarinnar sé eins fullkomið og kostur er. Til dæmis hefur verið bætt við myndavélum sem nema hreyfingarleysi og gera laugarvörðum viðvart, samkvæmt tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert