Krían komin á Nesið

Krían, sem íbúar á suðvesturhorninu líta gjarnan á sem hinn eina sanna vorboða, hefur látið sjá sig og iðar nú allt af lífi við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi. Krían sást hins vegar fyrst á Suðausturlandi í kringum 20. apríl, en að sögn Ævars Petersen fuglafræðings virðist komutími fuglsins vera að færast fram á við í almanakinu.

En þótt höfuðborgarbúar líti á kríuna sem táknmynd vorsins er hún langt frá því að vera fyrsti farfuglinn sem kemur til landsins. Sílamávurinn er kominn löngu á undan henni. Þá er misjafnt hvaða fugl landsmenn tengja við vorið, en til sveita er gjarnan horft til lóunnar í þeim efnum og íbúar í sjávarbyggðum tengja komu rytunnar við dýrðardaga vorsins.

Af öllum íslenskum farfuglum fer krían í lengsta farflugið, að sögn Ævars, en hún hefur lagt tugi þúsunda kílómetra að baki þegar hún lendir loks hér á landi. Í raun er lítið vitað um ferðir kríunnar þó þekkt sé að hún fari til Suðurheimskautsins að vetri.

Á leiðinni þangað heldur hún sér langt á hafi úti, sést einungis stöku sinnum við strendur Evrópu og Afríku. Ævar segir að nýjar upplýsingar um atferli fuglsins muni væntanlega liggja fyrir í haust, því sett hafi verið lítil mælitæki á 20 kríur í fyrra og vonast sé til að unnt verði að ná þeim í sumar þannig að lesa megi upplýsingar sem safnast hafi.

Krían er einn útbreiddasti sjófuglinn á Íslandi. Varpstaðir eru á að giska 1.500 og pörin um 250 til 500 þúsund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert