Ný slökkvistöð vekur litla hrifningu

mbl.is

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins vill reisa slökkvistöð við Stekkjarbakka og Skarhólabraut í Mosfellsbæ og loka stöð sinni við Tunguháls en meðal íbúa í Breiðholti er óánægja með staðarvalið við Stekkjarbakka þar sem gengið yrði á útivistarsvæði í Elliðaárdalnum.

Kynningarfundur um málið var haldinn með íbúum á mánudagskvöld og var hiti í fólki í upphafi fundar að sögn Egils Arnar Jóhannessonar, formanns hverfisráðs Breiðholts. Um 60-70 manns sóttu fundinn og segir Egill Örn að kynning á vegum SHS hafi verið frábær og allir sammála um forsendur SHS um að hafa sem stystan útkallstíma, en þær forsendur hafa einmitt leitt SHS á lóð við Stekkjarbakkann. Á fundinum var deilt hart á fyrirhyggjuleysi borgaryfirvalda fyrir 40 árum þegar Breiðholt var byggt upp án þess að reiknað væri með slökkvistöð.

„Þetta er fortíðarvandi en fundarmenn voru ekki reiðubúnir að láta þetta land fara undir byggingar,“ segir Egill Örn.

Málið er nú statt hjá skipulagsstjóra Reykjavíkur þar sem unnið er að skipulagshugmyndum. Engar ákvarðanir hafa verið teknar, enda hefur málið ekki farið endanlega fyrir skipulagsráð.

Að sögn Jóns Viðars Matthíassonar, slökkviliðsstjóra SHS, hefur um nokkurra ára skeið staðið yfir tölfræðileg úttekt á svæði SHS til að skoða útkallstíma liðsins. „Útkallstíminn er mjög mismunandi og kemur engum á óvart þar sem starfssvæðið hefur stækkað mikið og íbúum fjölgað,“ segir hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert