Sigurður fær ekki að flytja málið

Sakborningar í dómssal Héraðsdóms Reykjavíkur þegar málið var þingfest í …
Sakborningar í dómssal Héraðsdóms Reykjavíkur þegar málið var þingfest í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Símon Sigvaldason, héraðsdómari, úrskurðaði í dag að Sigurður G. Guðjónsson gæti ekki verið í hópi verjenda Jóns Ólafssonar, athafnamanns, í máli sem saksóknari efnahagsbrota hefur höfðað gegn Jóni og fleirum vegna meintra skattalagabrota. Ragnar Aðalsteinsson, verjandi Jóns, kærði þennan úrskurð þegar til Hæstaréttar.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, benti á það, þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku, að Sigurður G. Guðjónsson, gæti ekki verið annar af verjendum Jóns í málinu þar sem hann kynni seinna meir að verða kallaður fyrir sem vitni. Símon tók sér viku frest til að fjalla um málið og dómþingið í dag hófst með því að hann kvað upp úrskurð sinn. Kom það Ragnari í opna skjöldu því hann hafði búið sig gaumgæfilega undir að í dag færi fram málflutningur um ágreiningsefnið.

Helgi Magnús ítrekaði við dómhaldið í dag, að samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála gæti maður, sem hugsanlega yrði kallaður sem vitni, ekki verið verjandi málsaðila. Ragnar lýsti hins vegar þeirri skoðun að þau lagaákvæði brytu í bága við stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu.

Í úrskurði Símonar kemur fram, að tekin hafi verð skýrsla af Sigurði G. Guðjónssyn árið 2006  í þágu rannsóknar málsins og hafði hann þá réttarstöðu grunaðs manns. Var yfirheyrslan m.a. í tengslum þá stöðu að Sigurður var fyrrverandi stjórnarmaður Norðurljósa samskiptafélags hf., Skífunnar hf. og Íslenska útvarpsfélagsins hf., en fyrir lá kæra Skattrannsóknarstjóra ríkisins vegna skattskila þessara félaga.

Sigurður hafi ekki lengur stöðu grunaðs manns og hann sé ekki ákærður. En í ljósi rannsóknar málsins hjá lögreglu sé á þessu stigi málsins ekki unnt að útiloka að Sigurður verði á síðari stigum kallaður fyrir dóm sem vitni í málinu.

Búast má við niðurstöðu Hæstaréttar eftir helgina. Ragnar hefur einnig krafðist frávísunar málsins fyrir hönd Jóns og mun málflutningur um þá kröfu væntanlega fara fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í september. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert