Króuðu þjófana af

Sumarbústaður í Grímsnesi.
Sumarbústaður í Grímsnesi.

Nokkrir sumarbústaðaeigendur við Bjarkarborgir í Grímsnesi króuðu af þrjú ungmenni á bíl á sumarbústaðasvæðinu og kölluðu til lögreglu sem handtók ungmennin.  Í ljós kom að brotist hafði verið inn í sjö sumarbústaði á svæðinu og þaðan stolið hljómtækjum, áfengi og öðru smálegu.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi var fólkið flutt í fangageymslu og yfirheyrt næsta dag. Ungmennin viðurkenndu innbrotin og eru innbrotin upplýst.  Þau neituðu að eiga þátt í öðrum innbrotum sem átt hafa sér stað í sumarhúsabyggðum í Grímsnesi að undanförnu. 

Meðal óupplýstra mála af því tagi er innbrot í sumarbústað í byggingu við Dvergshraun í landi Miðengis í Grímsnesi en þaðan var stolið verðmætum verkfærum.  Innbrotið uppgötvaðist í vikunni en ekkert hafði verið unnið í sumarhúsinu frá því fimmtudeginum fyrir verslunarmannahelgi. 

Meðal verkfæra sem hurfu var loftpressa, borðsög, tvær gasbyssur, naglabyssa, hæðamælir og laserhæðamælir. 

Lögreglu biður þá sem veitt geta upplýsingar um óeðlilegar mannaferðir í sumarhúsabyggðinni í Dvergshrauni, sem er vestan við Biskupstungnabraut hjá Kerinu, að hafa samband í síma 480 1010. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert