Sviptur ökuréttindum fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Suðurlands í dag sviptur ökuréttingum í þrjá mánuði fyrir að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn neitaði að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við akstur þar sem tetrahýdrókannabínólsýra (niðurbrotsefni kannabis) hafði eingöngu fundist í þvagi hans.

Fyrr á árinu sýknaði Héraðsdómur Vestfjarða tvo ökumenn af ákæru um akstur undir áhrifum fíkniefna þrátt fyrir að tetrahýdrókannabínólsýra hafi fundist í þvagi þeirra. Hæstiréttur snéri hins vegar dómunum við og sakfelldi ökumennina.

Var maðurinn, sem var dæmdur í dag, ákærður fyrir að hafa ekið bifreið norður Eyrarbakkaveg við Litla-Hraun á Eyrarbakka, óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru.

Í málinu lá fyrir matsgerð frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. Kemur þar fram að í þvagi mannsins hafi fundist tetrahýdrókannabínólsýra. Þá segir í matsgerðinni að tetrahýdrókannabínólsýra sé í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil séu á íslensku forráðasvæði. Ökumaður teljist því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóð- og þvagsýnin voru tekin.

Var maðurinn, auk ökuleyfissviptingar, gert að greiða 70.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og  að greiða sakarkostnað, 184.521 krónu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert