„Mjög hissa á þessu verðmati“

„Vissulega hefur þetta áhrif á stöðu sjóðsins,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis-lífeyrissjóðs, spurður hvort kaup ríkisins á 75% hlut í Glitni hafi ekki rýrt stöðu sjóðsins, en sjóðurinn á rúm 1,3% í bankanum og er sextándi stærsti hluthafi hans. Árni segist fyrst hafa frétt af kaupum ríkisins í gegnum fjölmiðla í gærmorgun. Hann segist ekki geta sagt til um það á þessari stundu hvert tap sjóðsins er vegna kaupanna.

„Tapið veltur á því hvaða forsendur menn gefa sér. Við eigum 1,3% sem við höfum keypt á ýmsu gengi og síðan vitum við ekki hvert gengið verður eftir nokkra daga. Það er því erfitt að átta sig á umfangi tapsins á þessum tímapunkti,“ segir Árni.

„Ég verð að játa að ég er mjög hissa á þessu verðmati, ég veit ekki hvernig þeir finna þetta út. Þetta kom virkilega á óvart,“ segir hann um það verð sem ríkissjóður greiðir fyrir hlutinn. Spurður hvort hann telji að réttur smærri hluthafa sé fótum troðinn segist hann ekki tilbúinn að tjá sig um það.

Árni segir að lífeyrissjóðurinn muni fara yfir stöðuna næstu daga og bíða átekta. Hann segir rekstur sjóðsins ekki í hættu. „Auðvitað er þetta áfall fyrir okkur og aðra fjárfesta í Glitni, en ef einhver kemst í gegnum þetta þá eru það lífeyrissjóðirnir.“

„Þetta eru veruleg vonbrigði,“ segir Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins [LSR], en sjóðurinn átti 2,18% í Glitni og var tíundi stærsti hluthafinn. Haukur segir kaup ríkisins hafa komið sér verulega á óvart. „Við vissum að lausafjárskortur hrjáði bankann en bjuggumst aldrei við þessum aðgerðum. Ég hef þó engar forsendur til að meta hvort þetta var eina úrræðið sem kom til greina.“

Hann segir verðið vera töluvert lágt. LSR átti fjóra milljarða að markaðsvirði í bankanum en tap sjóðsins liggur ekki fyrir. Hann segir stöðu sjóðsins þó sterka. „Auðvitað er það samt súrt að horfa upp á svona mikla rýrnun á eignarhlut sjóðsins.“ Haukur segir samt erfitt að benda á sökudólg þegar hann er spurður um ábyrgð stjórnenda. „Ég held að enginn hafi séð svona mikla lausafjárkreppu fyrir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert