Yfir 700 milljarðar á ábyrgð ríkisins

Íslenska ríkið ábyrgist innlánsreikninga Landsbankans í Bretlandi, Icesave, fyrir meira en 200 þúsund Breta. Samtals nema upphæðirnar um 500 milljörðum króna sem ríkið ábyrgist.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir það með „ólíkindum“ að innistæðu-reikningar Icesave í Bretlandi hafi verið ríkistryggðir hér á landi. „Ég held að það sé alveg ljóst að það verði girt fyrir það í framtíðinni að íslensk fjármálafyrirtæki geti tekið lán í útlöndum, með því að hvetja til innlána á háum vöxtum, og gert það í skjóli íslenskrar ríkisábygðar. Það er galið og eflaust kemur það aldrei upp aftur.“

Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá Kaupþingi eru á milli 10 og 20 prósent af innlánsreikningum Kaupþings í Evrópu á ábyrgð íslenska ríkisins. Heildarinnlán á innlánsreikningum Kaupþing Edge eru um fimm milljarðar evra eða um 680 milljarðar íslenskra króna. Í heild ábyrgist íslenska ríkið á bilinu 68 til 136 milljarða af heildarinnlánum Kaupþing Edge í ellefu löndum Evrópu.

Þrír lífeyrissjóðir, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóðurinn Bankastræti 7 og Gildi lífeyrissjóður, töpuðu að öllum líkindum fjórtán milljörðum króna þegar Fjármálaeftirlitið (FME) tók yfir starfsemi Landsbankans í gærmorgun. Ekki náðist í Björgólf Guðmundsson, fyrrverandi formann bankaráðs Landsbankans, til að leita svara við því hvers vegna Landsbankinn hafði innistæður í Bretlandi ríkistryggðar hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert