Ísland enn í kastljósinu

mbl.is

Ísland er enn í sviðsljósi breskra fjölmiðla í dag. Í Sunday Times er birt ítarleg grein þar sem farið er yfir stöðu mála og því meðal annars lýst hvernig alsælir breskir ferðamenn vappa um Laugaveginn með krónurnar sínar. Það séu einungis útlendir ferðamenn sem brosa í Reykjavík þessa dagana, borg þar sem fólk ekur um á jeppum og sportbílum.

Í grein Sunday Times er fjallað um Davíð Oddsson, seðlabankastjóra og það rakið að hann hafi ekki einungis verið stjórnmálamaður um langa hríð heldur einnig skáld. Segir í greininni að ráðning Davíðs í Seðlabankann hafi valdið titringi á sínum tíma og margir Íslendingar hafi efasemdir um hvort rétt sé að vera með hann við stjórnvölinn í bankanum.

Haft er eftir Snjólfi Ólafssyni, prófessor við Háskóla Íslands, að Davíð sé með sterka stjórnmálasýn  og margir Íslendingar telji að hann sé helsta vandamálið.

Í greininni er einnig fjallað um þá Björgólfsfeðga og hvernig þeir hafi efnast í Rússlandi og eins lýsa ýmsir þeir sem hafa átt samskipti við Íslendinga um kaup og sölu á fyrirtækjum í Bretlandi því hvernig íslensku bankamennirnir og fjárfestarnir hafi komið fyrir.

Eins er komið inn á viðvörunarorð  greiningardeilda Merrill Lynch og Danske Bank árið 2006 og hvernig Íslendingar, svo sem sérfræðingar bankanna og fleiri brugðust við af heift og lýstu varnarorðunum sem bulli og vitleysu.

Íslensku bankarnir hafi hins vegar lært á þessu og stofnað reikninga eins og Icesave,Kaupthing Edge og Heritable. Segir í grein Sunday Times að það sé í raun athyglisvert hversu margir breskir sparifjáreigendur hafi fallið fyrir gylliboðum þessara banka því fjölmargir hafi varað við þessu. 

Í janúar hafi  Moody’s lýst íslensku bönkunum sem brothættum og í rannsókn sem Morgan Stanley hafi birt kom í ljós að það voru 7,5 sinnum meiri líkur á því að íslensku bankarnir myndu hrynja heldur en aðrir evrópskir bankar af sömu stærð og þeir.

Úttekt Sunday Times á Íslandi í heild 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert