Róttækustu viðbrögð sem um getur

Geir H. Haarde forsætisráðherra
Geir H. Haarde forsætisráðherra mbl.is/Golli

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankakreppunni hafa verið þau róttækustu sem um getur og neyðarlögin voru nauðsynleg til að bjarga því sem bjargað varð.  Þetta sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þegar hann flutti Alþingi skýrslu um efnahagsmál í dag.

Geir sagði nauðsynlegt að ráðast í uppgjör við fortíðina og að  fram myndi fara ítarleg rannsókn. „Ef minnsti grunur leikur á að framin hafi verið lögbrot er alveg skýrt að viðkomandi aðilar verða dregnir til ábyrgðar.“

Geir sagði örlagaríka daga að baki en á slíkum dögum sýndi þjóðin úr hverju hún er gerð. Æðruleysið veki hvarvetna aðdáun. Nú væru Íslendingar að komast hægt og bítandi út úr versta storminum.

Geir sagði ríkisstjórnina hafa lagt áherslu á að skoða fordómalaust allt sem gæti orðið okkur að liði og nefndi gjaldeyrisskiptasamninga við Norðurlöndin og mögulegt lán frá Rússum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þá sagði Geir, að íslensk stjórnvöld hefðu fengið breska lögmannsstofu til að kanna réttarstöðu Íslendinga vegna aðgerða breskra stjórnvalda oga þess tjóns, sem þau hefðu valdið á íslenskum fyrirtækjum.

Útlit er fyrir mikinn samdrátt í innlendri eftirspurn að sögn Geirs og þess vegna nauðsynlegt að beita hagstjórnartækjum ríkisins. Vísaði hann til þess að Seðlabankinn hafi þegar lækkað stýrivexti sem  komi til með að lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja. Koma þurfi hjólum efnahagslífsins aftur af stað.

Geir sagði kreppuna hafa átt upphaf sitt í Bandaríkjunum og að þó að íslensku bankarnir hafi staðið utan við undirmálslán þar hafi alkul á markaðnum leitt til þess að staða þeirra versnaði. Vöxtur bankanna hafi verið drifinn áfram að ódýru lánsfé og fyrirséð að árið 2008 yrði erfitt þegar kæmi að endurfjármögnun. Hins vegar hafi litið út fyrir að það myndi takast. En þegar lánsfé þurrkaðist upp hafi farið eins og fór.

Verkefnin framundan eru að sögn Geirs að bjarga sem mestu af verðmætum úr starfsemi bankanna. Ekki ætti að láta „bollaleggingar um upptök eldsvoðans hindra slökkvistarfið“.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert