Hvert tilfelli skoðað og komið til móts við fólk

mbl.is/Kristinn

„Frá byrjun þessa mánaðar hefur Kaupþing boðið viðskiptavinum að fresta afborgunum og afborgunum á vöxtum ef þess þarf,“ segir Finnur Sveinbjörnsson, formaður skilanefndar Kaupþings, um tilmæli ríkisstjórnar frá í fyrradag um að frystar verði afborganir skuldara á myntkörfulánum, sérstaklega vegna húsnæðislána, þar til ró kemst á. Finnur segir að hjá Kaupþingi sé hvert tilfelli vegið og metið og reynt að koma til móts við aðstæður fólks í greiðsluerfiðleikum. „En það er vilji skilanefndar að farið verði eftir tilmælunum.“

Hjá Glitni fengust þær upplýsingar að bankinn hefði þegar komið til móts við fólk varðandi erlend myntkörfulán og samþykkt tímabundið vaxtagjalddaga á lán, ef fólk uppfyllti ákveðin skilyrði. Fólk í verulegum greiðsluerfileikum væri meðhöndlað sérstaklega. Tilmæli ríkisstjórnarinnar um frystingu myntkörfulána væru í sérstakri skoðun hjá bankanum.

Í Landsbankanum var vísað á Fjármálaeftirlitið en þar fengust aðeins þær upplýsingar að tilmælin hefðu borist þangað. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra var á blaðamannafundi í gær spurður hvort með tilmælunum væri átt við að frystar yrðu greiðslur af höfuðstól lánanna eða hvort vaxtagreiðslur yrðu einnig frystar. Ráðherrann svaraði því til að með tilmælunum væri átt við allar greiðslur af lánunum.

Hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum, þar sem margir hafa tekið myntkörfulán vegna húsnæðiskaupa, er fólki boðið upp á að fresta tímabundið greiðslum af höfuðstól lána en áfram þarf að greiða vexti af þeim. Nú bíða um 300 slíkar umsóknir afgreiðslu hjá bankanum.

Margir hafa líka tekið slík lán vegna bílakaupa. Hafa fyrirtækin Avant og SP, sem lána til bílakaupa, boðið fólki að greiða aðeins vexti af lánunum í fjóra mánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert