Reiðin bitnar á bankastarfsmönnum

Álag á bankastarfsmenn hefur aukist gríðarlega að undanförnu. Viðskiptavinir bankanna eru sumir reiðir og áhyggjufullir og reiðin bitnar stundum á almennum bankastarfsmönnum, að því er Kristjana Emma Kristjánsdóttir, þjónusturáðgjafi og sölustjóri í útibúi Kaupþings í Kringlunni, segir.

„Fólk spyr hvað hæft sé í hinum og þessum sögusögnum og telur að við fáum upplýsingar beint frá yfirvöldum um fyrirhugaðar aðgerðir en við fáum þær ekki á undan öðrum. Við höfum reynt að róa fólk í samráði við okkar yfirmenn og svörum eftir bestu getu. Hafi maður ekki svör á reiðum höndum kemur það fyrir að sumir æsa sig um of. Það fyrsta sem maður reynir er auðvitað að koma til móts við fólk,“ segir Kristjana.

Hún segir fyrirspurnir og beiðnir fyrst og fremst snúast um lán. „Fólk vill auðvitað upplýsingar um stöðu lána sinna.“

Friðbert Traustason, formaður og framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, hefur heyrt af fjölmörgum dæmum um leiðindi í garð bankastarfsmanna. „Því miður er talsvert um að ráðist sé með fúkyrðum að almennum starfsmönnum sem enga ábyrgð bera á því hvernig komið er fyrir þjóðinni. Þeir fá til dæmis leiðindaathugasemdir um að þeir hafi fengið sín lán felld niður og eru þá um leið spurðir með leiðindatón hvort þeir geti ekki fellt niður lán viðskiptavinarins.“

Margir starfsmenn hafa þurft að leita sér hjálpar vegna áfallanna í fjármálafyrirtækjunum, að því er Friðbert greinir frá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert