Yfirlýsing frá stjórn gamla Glitnis

Reuters

Morgunblaðinu barst í gærkvöldi eftirfarandi yfirlýsing frá stjórn gamla Glitnis:

„Vegna umfjöllunar Morgunblaðsins um vöxt útlána Gamla Glitnis vill fyrrverandi stjórn bankans taka eftirfarandi fram. Eftir breytingar í stjórn Glitnis snemma árs 2007 var ákveðið að leggja áherslu á frekari vöxt bankans. Áætlun þar að lútandi var kynnt og eftir henni unnið. Í byrjun árs 2008 þegar áhrifa alþjóðlegu lausafjárkreppunnar tók að gæta var blaðinu snúið við og áhersla lögð á minnkun efnahagsreikningsins og lækkun kostnaðar í rekstri bankans.

Hafa ber í huga að stærstan hluta aukningar útlána bankans má rekja til veikingar krónunnar. Útlán Glitnis jukust um 977 milljarða króna sem jafngildir 62% aukningu á því ári sem Morgunblaðið gerir að umtalsefni, frá 1. júlí 2007 til 30. júní 2008. Þegar búið er að leiðrétta fyrir gjaldmiðlaþróun er raunveruleg aukning mun minni, eða 23,5%. Á árinu 2008 var ekki um raunaukningu útlána að ræða, heldur einungis hækkun vegna gengisþróunar. Þegar vöxtur útlána Glitnis er borinn saman við vöxt útlána hjá Kaupþingi og Landsbankanum, kemur í ljós að útlánasöfn þeirra jukust svipað eða meira en hjá Glitni á umræddu tímabili. Útlán Landsbankans jukust um 1.004 milljarða sem jafngildir 64% aukningu en 31,3% raunaukningu án gjaldmiðlasveiflu.

Útlán Kaupþings jukust um 1.560 milljarða króna, sem er 60% aukning, 21% að teknu tilliti til þróunar gjaldmiðla. Morgunblaðið lætur að því liggja að þúsund milljarða aukning útlána Glitnis á þessu tímabili tengist breytingum á eignarhaldi bankans og lánveitingum til stærstu eigenda hans, FL Group og fleiri tengdra félaga. Stjórn Glitnis vísar þessu á bug og bendir á að gerð er grein fyrir lánum til tengdra aðila í ársskýrslum og árshlutareikningum allra bankanna.

Lán Glitnis til tengdra aðila við uppgjör hinn 30.6.2008 námu 74 milljörðum króna eða 2,9% af heildarútlánum bankans. Sambærilegar tölur fyrir Kaupþing eru 146 milljarðar og 3,5% af útlánum, hjá Landsbankanum 64 milljarðar og 2,5% af útlánum. Morgunblaðið reiðir hátt til höggs annan daginn í röð. Þeir sem skoða staðreyndir sjá vindhögg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert