Yfirmenn lögreglu á Ísafirði lækka í launum

Lögreglustöðin á Ísafirði.
Lögreglustöðin á Ísafirði. mynd/bb.is

„Við bjuggumst ekki frekar en aðrir við svo miklum niðurskurði.“ segir Kristín Völundardóttir, sýslumaður á Ísafirði, en fjárveiting til embættisins fyrir árið 2009 verður skorin niður um 14,3 milljónir króna, fer úr 232,8 milljónum í 218,5 milljónir.

„Ég hef tekið þá ákvörðun að lækka eigin laun, yfirlögregluþjónn og aðstoðaryfirlögregluþjónn hafa einnig samþykkt launalækkun. Síðan er ég í viðræðum við starfsmenn, það er bara ekki komið að þessu enn. Ég er búin að senda tölvupóst á alla starfsmenn þar sem ég tjái þeim að ég lækki laun mín til samræmis við aðra,“ segir Kristín. Hún segist ekki ætla að lækka grunnlaun lögreglumanna á Vestfjörðum.

„Föst yfirvinna hjá lögreglumönnum verður skert og sömuleiðis aðgangur þeirra að yfirvinnu en ég hreyfi ekki við grunnlaunum,“ segir Kristín. Hún vonast til að þessar aðgerðir nægi til að draga úr þessu áfalli sem fylgir niðurskurðinum og er stefnan að ekki þurfi að segja upp lögreglumönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert