„Þetta eru dæmalausir dagar“

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur

„Þetta eru dæmalausir dagar og erfitt að finna einhver fordæmi úr fortíðinni sem hægt er að styðjast við,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur þegar hann var spurður um muninn á afsögn Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra og fyrri afsögnum ráðherra.

Hann sagðist geta tekið undir það sem Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, benti á í útvarpsfréttum í gær, að þeir sem sagt hafa af sér áður hafi gert það undir þrýstingi og talið sig órétti beitta. „Nú segir Björgvin að hann axli ábyrgð, beri ábyrgð, og segir þess vegna af sér. Hann er ekki reiður og sár út í einhverja sem eru að þvinga hann til afsagnar, frekar að hann sé hvattur til að halda áfram, sýnist manni. Þetta er kannski meginmunurinn, eins og Gunnar Helgi benti á,“ sagði Guðni.

Hann telur að Björgvin geti átt sér góða pólitíska framtíð, þótt hann hafi sagt af sér ráðherradómi. Nefnir hann í því sambandi afturkomu Alberts Guðmundssonar og þingferil Guðmundar Árna Stefánssonar eftir afsögn sem ráðherra. „Þetta er enginn dauðadómur yfir stjórnmálamanninum Björgvin G. Sigurðssyni. Hann er auðvitað með annað augað á kosningum í vor og að búa í haginn fyrir þær. Hann er í erfiðri baráttu við félaga í kjördæminu, það er sótt að honum, og hann vill vera vel vopnum búinn í þeirri baráttu sem er framundan og þá er gott að losa sig við þær byrðar sem ráðherradómurinn er orðinn,“ segir Guðni. Th. Jóhannesson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert