Jóhanna ekki heldur rætt við Brown

Össur Skarphéðinsson í ræðustóli Alþingis.
Össur Skarphéðinsson í ræðustóli Alþingis. mbl.is/Ómar

Ekkert styður þá trú að bresk yfirvöld hafi beitt þau íslensku hryðjuverkalögum vegna yfirlýsinga frá hendi íslenskra ráðherra, um það leyti sem íslensku bankarnir féllu. Þetta kom fram í svari Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um ástæður Breta fyrir beitingu hryðjuverkalaga á Ísland. Einnig kom fram í svari Össurar að Jóhanna Sigurðardóttir, nýr forsætisráðherra, hafi ekki talað beint við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, síðan hún tók við stjórnarráðinu.

Hann sagði ekki liggja fyrir nýjar upplýsingar hjá neinu ráðuneyti um þessar ástæður, en gerði því hins vegar skóna að ummæli Davíðs Oddssonar í Kastljósi Ríkissjónvarpsins 7. október hefðu haft þar áhrif. Sömuleiðis að ræða hans hjá Viðskiptaráði 18. október hefðu verið túlkuð þannig í breskum fjölmiðli, blaðinu The Financial Times, sem viðurkenning á því af hálfu íslensks stjórnvalds að Íslendingar hefðu ætlað að hlaupast frá skuldbindingum sínum.

Siv þótti ekki mikið til svara ráðherrans koma, og taldi hann hvítþvo sig af málinu öllu með því að kenna Davíð Oddssyni um allt sem miður fór. Hún spurði Össur enn fremur hvað væri viðunandi niðurstaða í Icesave málinu.

Össur svaraði því til að viðunandi niðurstaða væri að fá þau kjör á skuldbindingar ríkisins, sem eru „viðunandi, ásættanleg miðað við málsástæður og þannig að við getum risið undir þeim.“ Formleg samninganefnd vegna þess máls verður líklega kynnt fyrir vikulokin, að sögn Össurar.

Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók einnig til máls og sagði frá því að hann hefði gert tilraun til að ná sambandi við Gordon Brown þann 9. október, en þá aðeins komist í samband við Alistair Darling, fjármálaráðherra. Hann hafi hins vegar talað við Brown fimmta október, og hefði reynt að ná í hann daginn fyrir hrun bankanna, en ekki haft erindi sem erfiði. Árni M. Mathiesen, þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði hins vegar löngu komið í ljós að beiting hryðjuverkalaganna hefði fyrst og fremst verið ætluð til heimabrúks, þ.e. til lýðskrums í breskum innanlandsstjórnmálum.

Atli Gíslason, þingmaður Vinstri-grænna, furðaði sig hins vegar á því í umræðunni að þegar málið kom upp hafi það ekki verið rannsakað sem glæpamál undir eins. Hlutaðeigandi bankar og stjórnendur þeirra yfirheyrðir með stöðu sakborninga, vegna gruns um meint landráð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert