Breytingartillögur til bóta en ganga of skammt

Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason, seðlabankastjórar á fundi viðskiptanefndar nýlega.
Davíð Oddsson og Eiríkur Guðnason, seðlabankastjórar á fundi viðskiptanefndar nýlega. mbl.is/Ómar

Minnihluti viðskiptanefndar Alþingis, sem skipaður er fjórum þingmönnum Sjálfstæðisflokks, segir í áliti um frumvarp um Seðlabanka, að breytingartillögur sem meirihluti nefndarinnar hefur lagt fram við frumvarpið, séu allar til bóta en gangi þó of skammt.

Segir í áliti minnihlutans, að í upphaflegu frumvarpi hafi verið gert ráð fyrir einum bankastjóra og ekkert fjallað um staðgengil hans. Þetta hafi sætt talsverðri gagnrýni umsagnaraðila og séu viðbrögð nefndarmeirihlutans að gera tillögu um aðstoðarbankastjóra, sem skipaður verði með sama hætti og sömu skilyrðum og bankastjórinn.

„Minni hlutinn telur þetta ótvírætt til bóta. Ástæða er hins vegar til að vekja athygli á því að nái breytingartillagan fram að ganga verður mun minni breyting á skipulagi yfirstjórnar bankans heldur en yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar gerði ráð fyrir. Í stað eins bankastjóra sem gegnir hlutverki formanns bankastjórnar og tveggja annarra bankastjóra koma einn bankastjóri og einn aðstoðarbankastjóri. Það er því aðeins um að ræða fækkun um einn í yfirstjórninni og breytingu á titlum," segir í áliti minnihlutans.

Leggja sjálfstæðismenn til, að frumvarpið verði samþykkt með breytingum, sem þeir leggja til, m.a. um að gerð verði sú krafa að seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri hafi lokið háskólaprófi og búi yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum.

Þá leggja þingmenn Sjálfstæðisflokks til, að við skipun í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra skuli forsætisráðherra skipa þriggja manna nefnd er hafi það hlutverk að leggja mat á hæfni umsækjenda. Skuli einn nefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Í framsöguræðu sinni fyrir hönd minnihlutans sagði Birgir Ármannsson að á vissan hátt væri verið að færa ofurvald yfir peningastefnunefnd frá Seðlabankastjóra til forsætisráðherra. Þannig væri verið að fara úr einum öfgunum í aðrar. Ekki síst gagnrýndi hann að 80% nefndarmanna yrðu fyrst um sinn háðir skipunarvaldi forsætisráðherra, þ.e. seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri og tveir aðrir nefndarmenn. Þetta vekti upp spurningar um sjálfstæði Seðlabankans gagnvart pólitísku valdi.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og meðlimur í meirihluta viðskiptanefndar, svaraði Birgi hins vegar á þann hátt að ákvæðið um nefndina sem fjallaði um skipun seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra takmarkaði vald ráðherrans að þessu leyti.

Álit sjálfstæðismanna í viðskiptanefnd

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert