Héldu að Baugur hefði verið oftast í fréttum

Stjórnmálaflokkar og ráðherrar voru mest áberandi í fréttum fjölmiðla í …
Stjórnmálaflokkar og ráðherrar voru mest áberandi í fréttum fjölmiðla í fyrra. mbl.is/Golli

Þátttakendur í könnun, sem Capacent gerði fyrir Creditinfo í desember töldu flestir að Baugur væri það fyrirtæki, stofnun eða samtök, sem hefði komið oftast fram í fréttum fjölmiðla árið 2008.

Í raun var Baugur  28. sæti árið 2008, kom fram í 1.344 fréttum, samkvæmt talningu Creditinfo. Sjálfstæðisflokkurinn var mest í fréttum í fyrra og kom alls fram í 12.799 fréttum, næst var Samfylkingin  í 9402 fréttum og Reykjavíkurborg í 7242 fréttum.

Þeir einstaklingar, sem oftast var minnst á í fréttum voru, í þessari röð, Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Björgvin G. Sigurðsson, Guðni Ágústsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ólafur F. Magnússon, Árni M. Mathiesen og Össur Skarphéðinsson.

Tæplega 17% svarenda í könnun Capacent taldi, að Seðlabankinn hefði oftast komið fram í fréttum. Seðlabankinn var í fjórða sæti þeirra sem oftast komu fram, í tæplega 5.200 fréttum.

Flestar og fjölbreyttastar fréttir í Morgunblaðinu

Samkvæmt greiningu Creditinfo birtust ríflega 36% innlendra dagblaðafrétta í Morgunblaðinu en Fréttablaðið mælist með ríflega 28% hlutdeild. Mjög mikill samdráttur er sýnilegur á dagblaðamarkaði, m.a. birtust 53% færri dagblaðagreinar fyrstu 19 daga janúar 2009 samanborið við fyrstu 19 dagana í 98janúar árið 2008.

Flestar ljósvakafréttir eru fluttar á samtengdum rásum Rásar 1 og 2 í Ríkisútvarpinu eða tæplega 41% innlendra frétta í ljósvakamiðlum. Ef aðeins eru skoðaðar hádegisfréttir mælast einnig flestar fréttir á samtengdum rásum Rásar 1 og 2 en í kvöldfréttatíma mælist Sjónvarpið með flestar innlendar fréttir.

Niðurstöður málefnagreiningar sýna að ríflega 20% greina í dagblöðum fjalla um menningu og listir en undir það málefni heyra t.d. greinar og gagnrýni um kvikmyndir, tónlist, bækur, leikhús o.fl. Næst á eftir menningu/listum mælast viðskipti og rekstur en tæplega 11% blaðagreina dagblaðanna fjalla um þennan málaflokk.

Niðurstöður málefnagreininga dagblaða sýna jafnframt að Morgunblaðið fjallar oftast um flest málefni, eða að meðaltali 39% af þeirri umfjöllun sem dagblöðin birta um hvert málefni fyrir sig. Í Morgunblaðinu birtast tæplega helmingur þeirra blaðagreina sem birtar eru um fræðslumál. 

Creditinfo taldi fréttir, sem birtust á vefmiðlunum mbl.is og vísi.is dagana 8.-31. desember í fyrra. Samkvæmt því birtust 3164 fréttir á mbl.is þetta tímabil en 3787 á vísi.is.

Af fréttunum á mbl.is voru 2339 upprunnar þar eða 73,9%. 511, eða 16,2, komu úr Morgunblaðinu en afgangurinn var merktur erlendum fréttaveitum. 

Af fréttum vísis.is voru 2147, eða 56,7%, upprunnar þar. 788, eða 33,7%, voru úr Fréttablaðinu,  og 733 eða 19,2%, úr héraðsfréttablöðunum Bæjarins besta, Víkurfréttum og Skessuhorni. Afgangurinn var merktur Markaðnum og Stöð 2. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert