Ákvörðun keðjunnar vonbrigði

Baldvin Jónsson.
Baldvin Jónsson. mbl.is/Sverrir

Baldvin Jónsson, framkvæmdastjóri verkefnisins Áforms um markaðssetningu á íslenskum vörum í Bandaríkjunum, segir afleitt að verslanakeðjan Whole Foods Market hyggist draga úr kynningu á íslenskum vörum vegna þeirrar ákvörðunar Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, að heimila takmarkaðar hvalveiðar fram til ársins 2013.  

Baldvin segir forsvarsmenn keðjunnar hafa heyrt mikið frá umhverfisverndarsamtökum vegna veiðanna sem þeir telji sig þurfa að taka tillit til.

Ákvörðun keðjunnar séu mikil vonbrigði enda hafi hún kynnt íslenskar vörur og lagt áherslu á sjálfbærni veiðistjórnunarkerfisins á íslandi.

Keðjan hafi þegar frestað markaðssetningu á upprunavottuðum fiski frá íslenskum sjómönnum út af þessu máli, áætlanir sem enn hafi ekki verið fallið frá.

Hans mat sé að forsvarsmenn Whole Foods Market bíði nú eftir viðbrögðum fjölmiðla og almennings við veiðunum.

Ákvörðunin séu skilaboð um að markaðssetning og sala íslenskra vara geti farið á versta veg verði mótmælin mikil.

Aðspurður um áhrifin á sölu á íslensku skyri og mjólkuvörum í verslunum keðjunnar segir Baldvin söluna hafa haldið áfram að aukast.

Íslendingar vilji efla kynningu á vörunum, markmið sem ákvörðun keðjunnar gengur þvert á.

Vonir séu bundnar við birtingu greinar í útbreiddu ferðatímariti um íslenskar matvörur í maí.

Þá sé enn stefnt að því að allar 270 verslanir Whole Foods Market verði með skyrið til sölu fyrir mitt ár 2010.

Allar verslanirnar hafi verið með íslenska bleikju á boðstólnum frá því í janúar. Þar fari valkostur gagnvart eldislaxi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert