Listaverkasafn SPRON er ekki til sölumeðferðar

SPRON á gott safn listaverka sem nú er í umsjón skilanefndar sparisjóðsins. Hlynur Jónsson, formaður skilanefndarinnar, segir að þessi verk séu ekki í sölumeðferð. Ákvörðun verði tekin um það síðar hvernig farið verður með þessa verðmætu eign. „Það verður enginn asi í þessu máli,“ segir Hlynur.

Eins og fram kom í fréttum í haust komust verðmæt listaverkasöfn Landsbankans, Glitnis og Kaupþings í umsjón ríkisins við hrun bankanna. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra vill tryggja að þessi listaverk verði áfram í eigu ríkisins.

SPRON eignaðist mörg verðmæt listaverk í tíð Baldvins Tryggvasonar, fyrrverandi sparisjóðsstjóra, enda beitti hann sér sérstaklega fyrir því að sparisjóðurinn fjárfesti í listaverkum. Baldvin sagði í samtali við Morgunblaðið, að hann teldi rétt að þessi verk rynnu nú til Listasafns Reykjavíkur. Vísaði hann þar til sterkrar tengingar SPRON við reykvískt lista- og menningarlíf og þess að verkin væru fyrst og fremst keypt fyrir peninga frá Reykvíkingum og íbúum í nágrannasveitarfélögunum.

Morgunblaðið leitaði í gær eftir upplýsingum um fjölda listaverka og samsetningu safnsins hjá Stefáni Kjartanssyni, forstöðumanni rekstrarsviðs SPRON. Stefán kvaðst ekki geta veitt upplýsingar og vísaði á skilanefndina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert