Segir djúpstæðan ágreining á milli stjórnarflokkanna

Frá vinnu við járnabindingar á framkvæmdasvæði álvers Norðuráls í Helguvík.
Frá vinnu við járnabindingar á framkvæmdasvæði álvers Norðuráls í Helguvík.

Fjallað var um afgreiðslu á fjárfestingarsamnings Century Norðuráls vegna álversuppbyggingar í Helguvík á fundi iðnaðarnefndar Alþingis í dag. Formaður nefndarinnar segir að stefnt sé að því að afgreiða málið á morgun. Þingmaður Framsóknarflokksins segir hins vegar að djúpstæður ágreiningur hafi komið upp á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna í málinu, sem munu greiða atkvæði gegn frumvarpinu.

„Það er greinilegur vilji fyrir því að afgreiða málið og það er meirihluti fyrir því á þinginu,“ segir Eygló Harðardóttir, sem á sæti í nefndinni fyrir Framsókn, og bætir við að svo virðist sem að Vinstri grænir séu mjög ósáttir við frumvarpið. Það sé einkennilegt að upplifa það hvað það sé mikill ágreiningur á milli stjórnarflokkanna í þessu máli. „Maður fær einna helst á tilfinninguna að Vinstri grænir séu að reyna tefja málið eins og hægt er þrátt fyrir að það sé orðið mjög stutt eftir af þinginu.“

Málið vonandi afgreitt á morgun

Katrín Júlíusdóttir, formaður nefndarinnar og þingmaður Samfylkingarinnar, segir ekkert nýtt hafa komið fram á fundinum í morgun. „Ég kynnti nefndarálit sem fólk er að kynna sér í dag,“ segir Katrín og bætir við að stefnt sé að því að afgreiða málið úr nefnd á morgun. Hún segir málið vera viðamikið og að nefndinni hafi borist fjöldi umsagna, þær síðustu hafi komið á borð nefndarmanna í morgun.

„Það er ekki komið að þeim punkti að málið verði tekið endanlega til afgreiðslu, en ég vonast til þess að það verði á morgun,“ segir Katrín.

VG greiðir atkvæði gegn frumvarpinu

Álfheiður Ingadóttir, varaformaður nefndarinnar og þingmaður VG, segir að afstaða VG sé skýr. „Þetta stangast algjörlega á við okkar stefnu í atvinnumálum, umhverfismálum og efnahags- og skattamálum. Það margt athugunarvert við þetta mál og að mínu mati er það langt því frá tilbúið að vera afgreitt út úr nefnd,“ segir Álfheiður og bætir við: „Ég hef lýst því yfir að ég mun greiða atkvæði gegn þessu.“ Álfheiður reiknar því með að hún muni skila séráliti.

„Ég er ekki með neinn dýptarmæli,“ segir Álfheiður spurð út í djúpstæðan ágreining á milli stjórnarflokkana. „Hvar er Fagra Ísland í þessum áformum,“ spyr hún og vísar til Helguvíkurfrumvarpsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert