Skylda að koma í veg fyrir vanhugsaðar breytingar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í dag.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bjarni Benediktsson á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálfstæðisflokkurinn segir, að það sé hlutverk og skylda stjórnarandstöðu á Alþingi að koma í veg fyrir að í tímaþröng verði ráðist í vanhugsaðar breytingar á stjórnarskránni. Þetta kom fram á blaðamannafundi forustumanna flokksins í dag.

Bjarni Benediktsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, boðuðu til blaðamannafundarins og sögðu að til stæði að keyra í gegnum Alþingi breytingar á grundvallarlögum lýðveldisins á fáeinum dögum. Sögðu þau að sérfræðingar og samtök, sem leitað hefði verið umsagnar hjá í meðförum málsins á Alþingi, væru nánast allir á einu máli um það, að málið sé ekki fullunnið, og að tíminn sem gefinn hafi verið til umsagnar og umræðu sé of naumur.

Þá blasi við, að ekki hafi farið fram málefnaleg og vönduð umræða um málið í þjóðfélaginu á þeim skamma tíma sem liðinn sé frá því frumvarpið var lagt fram.

Sjálfstæðisflokkurinn telji engu að síður þörf á að breyta stjórnarskránni með ígrunduðum hætti og hafi lagt fram tillögu í þeim efnum. Til þess að liðka fyrir slíkum breytingum og skapa svigrúm fyrir vandað verklag, telji flokkurinn eðlilegt að breyta 79. grein stjórnarskrárinnar, þannig að ekki þurfi að rjúfa þing og fá endurnýjað samþykki Alþingis til þess að stjórnarskrárbreytingar taki gildi.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins kveður á um, að breytingar á stjórnarskrá eigi að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef farin verður sú leið á yfirstandandi þingi, og endurnýjað samþykki Alþingis fæst eftir kosningar, þá verður hægt að setja hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá í vandaðan farveg og leggja þær svo í dóm þjóðarinnar, án þess að rjúfa þing.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert