Of harkalegt að beita lögum um hryðjuverk

Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.
Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands. Reuters

Fjárlaganefnd breska þingsins gagnrýnir að hryðjuverkalögum hafi verið beitt gegn Landsbankanum og Íslandi í kjölfar hruns bankans í október síðastliðnum. Kemur þetta fram í nýrri skýrslu, sem birtast mun opinberlega í dag.

Hvetur nefndin breska fjármálaráðuneytið til að fara yfir lögin og athuga hvort rétt yrði að beita þeim undir svipuðum kringumstæðum í framtíðinni. Kallar nefndin eftir breytingu á lögum svo að yfirvöld hafi önnur úrræði en að beita hryðjuverkalögum í sambærilegum málum.

Jók vantraust á Kaupþing

Í skýrslunni er einnig fjallað um þær skýringar sem Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, gaf á þeirri ákvörðun sinni að beita hryðjuverkalögum. Sagði hann hinn 8. október að íslensk stjórnvöld hefðu ekki í hyggju að standa við skuldbindingar sínar í Bretlandi.

Í samtali við nefndina vísaði Darling, máli sínu til stuðnings, í samtal sem hann átti við Árna M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra. Í skýrslunni segir að ekkert í samtalinu renni stoðum undir fullyrðingar Darlings. Þvert á móti hafi Árni sagt að Ísland vildi reyna að mæta skuldbindingum sínum í Bretlandi með tryggingasjóði innstæðueigenda. Hins vegar segir í skýrslu nefndarinnar að ekkert hafi komið fram sem beinlínis hreki þá trú Darlings að íslensk stjórnvöld myndu koma með mismunandi hætti fram við íslenska og breska innstæðueigendur.

Orð og aðgerðir Darlings eru sögð hafa haft alvarleg neikvæð áhrif á traust markaðsaðila í garð Kaupþings, sem á þessum tíma stóð eitt eftir af stóru íslensku bönkunum. Hins vegar hafi nefndin ekki séð nein gögn sem bendi til að Kaupþing hefði getað forðast gjaldþrot þótt Darling hefði ekki tjáð sig með áðurnefndum hætti.

Þá leggur nefndin til að bresk stjórnvöld komi líknarfélögum sem töpuðu á Icesave-reikningunum til bjargar en ekki sveitarfélögum.

Misjafnt eftirlit

Í skýrslu bresku þingnefndarinnar eru núgildandi evrópskar reglur um rekstur fjármálafyrirtækja gagnrýndar. Er þar vísað til þess að vegna þess að Ísland sé í Evrópska efnahagssvæðinu hafi starfsleyfi, sem gefið sé út á Íslandi, gilt á svæðinu öllu. Þar með hafi íslensku bankarnir getað athafnað sig að vild í Bretlandi. Hins vegar sé skortur á samræmi í reglunum um hvaða eftirlitsstofnanir eigi að fylgjast með útibúum og dótturfyrirtækjum erlendra fjármálastofnana. Er sem dæmi nefnt að Singer and Friedlander, dótturfyrirtæki Kaupþings, hafi lotið eftirliti breskra yfirvalda og það hafi Heritable Bank, dótturfélag Landsbankans, sömuleiðis gert. Hins vegar hafi íslenska fjármálaeftirlitið átt að hafa eftirlit með starfsemi Icesave í Bretlandi. Kallar nefndin eftir endurskoðun á þessum reglum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert