Aukaframlag til LÍN

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að veita 650 milljónum aukalega til Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Í þingræðu Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, kom fram að þetta gerði sjóðnum kleift að lána þrjú til fjögur þúsund námsmönnum sem ella kynnu að verða atvinnulausir í sumar.

Þessar upplýsingar komu fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Birkir J. Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, spurði ráðherra hvað ríkisstjórnin hygðist gera til að koma til móts við námsmenn sem myndu lenda í vanda vegna yfirvofandi atvinnuleysis.

Katrín sagði að LÍN eins og fleiri samfélagsstofnanir ættu í miklum vanda og í fjárlögum hefði eigið fé sjóðsins verið skorið niður um milljarð. Ríkisstjórnin vildi koma til móts við námsmenn og því hefði ríkisstjórnin ákveðið að leggja honum til 650 milljónir, þ.e. ef Alþingi veitti samþykki sitt. Jafnframt benti hún á að þessir námsmenn gætu átt rétt á um milljarði í atvinnuleysisbætur. Um 75% námsmanna ættu rétt á atvinnuleysisbótum og því þyrfti að taka ákvörðun um hvort námsmönnum yrði boðið upp á nám eða hvort þeir yrðu að mæla göturnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert