Ströng ákvæði um þagnarskyldu

Ákvæði íslenskra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu fjármála- og eftirlitsstofnana eru í aðalatriðum sambærileg reglum sem gilda í nágrannaríkjum. Ákvæði um þagnarskyldu eftirlitsaðila eru hins vegar strangari hér.

Þetta kemur fram í skýrslu, sem  Dóra Guðmundsdóttir, lögfræðingur, gerði fyrir viðskiptaráðuneytið. Þar er að finna yfirlit um ákvæði íslenskra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu fjármála- og eftirlitsstofnana og samanburð við sambærilegar reglur í Danmörku, Noregi, Þýskalandi og Bretlandi. Jafnframt er gerður almennur samanburður á íslenskum reglum og reglum Sviss, Lúxemborgar og Liechtenstein sem þekkt eru fyrir ríka bankaleynd.

Í skýrslunni er fjallað um hugtakið bankaleynd. Þar kemur fram að hugtakið er ekki skilgreint í íslenskum lögum og einnig að í almennri umræðu sé hugtakið rýmra en lagaleg afmörkun þess bendi til.  Þá sé þagnarskylda starfsmanna um upplýsingar um viðskiptavini lögbundin, líkt og í Noregi og Danmörku og að brot á þagnarskyldunni varði refsingu.

Í öðrum ríkjum, t.d. í Þýskalandi og Bretlandi, byggir þagnarskyldan á samningi aðila þar sem brot á þagnarskyldu varðar einkaréttarlegum viðurlögum frekar en refsiviðurlögum.

Viðskiptaráðuneytið segir, að af niðurstöðu skýrslunnar megi ráða að nokkur munur sé á reglum um þagnarskyldu eftirlitsaðila, að því er varðar þá sem miðla má upplýsingum til. Minni takmarkanir sé t.d. að finna í dönskum og breskum rétti á því hverjir geta fengið aðgang að upplýsingum frá fjármálaeftirliti en í íslenskum, norskum og þýskum rétti. Niðurstaða þessi sé þó sett fram með fyrirvara um nýjar heimildir íslensks réttar vegna hlutverks sérstaks saksóknara og rannsóknarnefndar um fall íslensku bankanna og hugsanlegar heimildir á öðrum sviðum réttarins.

Í framhaldi af þessu mun viðskiptaráðuneytið fara yfir niðurstöður skýrslunnar og gera tillögur um breytingar. Þá er einnig á vegum ráðuneytisins unnið að breytingum á reglum um upplýsingagjöf um eignarhald og tengsl eigenda fjármálafyrirtækja.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert