Fréttaskýring: Hlýnun jarðar ógnar eyjasamfélögum

Stór hluti af Bangladesh er ekki nema einn eða tvo …
Stór hluti af Bangladesh er ekki nema einn eða tvo metra yfir sjávarmáli. Hækki sjávarborð verður hann óbyggilegur. AP

Gestir á loftslagsráðstefnunni í Tromsö í Noregi hlustuðu fullir samúðar þegar Dipu Moni, utanríkisráðherra Bangladess, og Kenrick R. Leslie, framkvæmdastjóri loftslagssamtaka Karíbahafseyja, röktu hvernig hækkandi sjávaryfirborð og breytt veðramynstur ógnaði samfélögum þeirra.

Þótt Bangladess sé aðeins 144.000 ferkílómetrar, tæplega 50% stærra en Ísland, búa þar um 150 milljónir manna.

Hluti íbúanna býr við sjó og segist Moni aðspurð óttast að jafnvel tugmilljónir manna muni þurfa að flýja heimili sín vegna hækkandi sjávarmáls.

Fyrirséður flóttamannavandi

Vandi Bangladess og annarra sambærilegra ríkja sem liggja lágt að sjó sé vandamál sem önnur ríki muni fyrr eða síðar þurfa að glíma við.

Vegna legu sinnar hefur Bangladess þótt táknrænt fyrir þann hluta loftslagsvandans sem hljótast mun af hækkun sjávarborðs, gangi núverandi spár eftir.

Aðspurð um viðbrögð stjórnvalda við þessari vá bendir Moni á að flóð og fellibyljir hafi einnig verið fylgifiskur hlýnunar í Bangladess. Hér sé á ferð veðurfarsbreyting sem hafi valdið gífurlegu tjóni í landinu.

Það sama er upp á teningnum í Karíbahafinu og kveðst Leslie aðspurður afar áhyggjufullur vegna þessarar þróunar.

„Fellibyljirnir í Karíbahafi eiga upptök sín sunnar en áður. Þeir eru einnig öflugri. Fellibylurinn Ivan er ágætt dæmi en rætur hans voru austar en almennt gerist á þessum slóðum,“ segir hann. „Hvað varðar breytingar á fellibyljamynstrinu þá ber ekki eingöngu að horfa á tíðnina í því samhengi. Vandamálið er styrkur þeirra. Áður var algengt að þeir væru fyrsta og annars stigs en nú eru þriðja, fjórða og fimmta stigs fellibyljir tíðir. Þeir eru því mun öflugri og eyðileggingin sem þeir valda að sama skapa meiri.“

Breytt fellibyljamynstur

Aðspurður hvort ekki geti verið um að ræða sveiflur í veðrakerfunum segir Leslie að gögn sem nái aftur til fyrir hluta 20. aldar sýni vissulega að fellibyljahrinur komi og fari. Það sem hafi hins vegar breyst sé að fellibyljum í hverri hrinu fjölgi.

Úrkoman hafi einnig aukist. Í stað þess að rigningin dreifist nokkuð jafnt yfir rigningartímann falli hún á nokkrum dögum í skýfalli.

„Þetta hefur alvarlegar afleiðingar því að flóðin sem skýfallið veldur bera mikilvæg næringarefni á brott með sér úr jarðveginum,“ segir Leslie og leggur áherslu á orð sín. Inntur eftir því hvaða afleiðingar hækkun sjávarmáls muni hafa í för með sér í Karíbahafi segir Leslie hana af mörgum ástæðum vera mikla ógn við eyjasamfélögin.

Flestar eyjarnar byggi afkomu sína á ferðamennsku. Mikið hafi því verið fjárfest í mannvirkjum við strendurnar. Þá hafi margar eyjanna takmarkaðan aðgang að vatni. Þegar sjávarmálið hækki valdi það því að vatnsbólin verði saltari. Þetta ógni matvælaframleiðslu.

Mikil útgjöld

Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, og Al Gore, handhafi friðarverðlauna Nóbels, voru gestgjafar á ráðstefnu norðurskautsráðsins um áhrif hlýnunar á norðurskautinu sem fram fór í Tromsö í síðustu viku.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu skýrði vísindakonan Dorthe Dahl-Jensen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, þar frá þeirri nýju spá að sjávarmál kynni að hækka um frá hálfum og upp í einn og hálfan metra á öldinni.

Vart þarf að taka fram að sú þróun myndi hafa víðtækar afleiðingar sem og þáttur hlýnunar í breyttu mynstri fellibylja og gífurleg útgjöld vegna þeirra. Má þar nefna að samanlagt tjón af völdum fellibylja í Karíbahafinu var yfir fjórir milljarðar Bandaríkjadala á ári á tímabilinu 2004 til 2008 og mest átta milljarðar dala í fyrra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert