Vörður starfar á FME-undanþágu

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar.
Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar.

„Okkar staða er ágæt og í raun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Við erum þó starfandi á grundvelli frests frá Fjármálaeftirlitinu (FME),“ segir Kjartan Georg Gunnarsson, stjórnarformaður Varðar tryggingarfélags.

Félagið vinnur nú að því að afla frekara hlutafjár til þess að standast lágmörk um eiginfjárhlutafall, svonefnt gjaldþol.

Guðmundur Jóhann Jónsson, forstjóri Varðar, segir lausafjárstöðu félagsins góða og reksturinn sé traustur. „Eigendur fyrirtækisins vinna nú að því að afla hlutafjár og styrkja reksturinn til framtíðar. Eins og rekstrarumhverfi fyrirtækja er nú er ekki óeðlilegt að staðan sé erfið, en við berum okkur vel. Á þessu ári hefur gengið ágætlega en það þarf að bæta eiginfjárstöðu félagsins. Ég er bjartsýnn á að það takist innan tíðar,“ segir Guðmundur Jóhann.

Til að standast kröfur um gjaldþol þarf eiginfé Varðar að vera 255 milljónir króna. Eins og mál standa nú nær það því ekki, þótt eiginfjárstaðan sé jákvæð að sögn Guðmundar. Félagið hefur frest fram í september til þess að lagfæra stöðu sína þannig að það uppfylli lágmarkskröfur um starfsemi tryggingarfélaga.

Fjármálaeftirlitið birti í gær á vef sínum frétt um rekstrarafkomu tryggingarfélaga af skaðatryggingum. Samanlagður hagnaður var 819 milljónir. Iðgjöld af skaðatryggingum námu 37,3 milljörðum samanborið við 32,9 milljarða árið áður. Hagnaður var mestur af lögbundnum ökutækjatryggingum, 2,4 milljarðar króna, en var 2,8 milljarðar árið áður.

Samanlagður hagnaður innlendu líftryggingarfélaganna var 1,5 milljarðar í fyrra samanborið við 1,3 milljarða árið áður.

Eina tryggingarfélagið sem ekki hefur skilað ársreikningum er Sjóvá. Hin stóru tryggingarfélögin, TM og VÍS, hafa bæði skilað ársreikningi og var staða þeirra beggja fjárhagslega traust, þrátt fyrir erfitt árferði, að sögn forsvarsmanna fyrirtækjanna.

Samkvæmt upplýsingum frá FME verður umfjöllun eftirlitsins um stöðu tryggingarfélaganna í heild birt eftir helgi.

Ekki náðist í forsvarsmenn Sjóvár í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert