Brugðist verði við einelti

Farið verður yfir viðbrögð við einelti í skólum, leikskólum og …
Farið verður yfir viðbrögð við einelti í skólum, leikskólum og félagsmiðstöðvum.

Gerð verður úttekt á viðbragðsáætlun borgarstofnana gegn einelti. Markmiðið er meðal annars að ekkert barn eða unglingur í Reykjavík eigi að þola einelti. Tillaga Samfylkingarinnar þessa efnis var samþykkt í borgarstjórn í kvöld.

Í samþykktinni er kveðið á um að horft verði til skóla, leikskóla, félagsmiðstöðva, frístundaheimila og annarra starfsstöðva Reykjavíkurborgar. Mannréttingastjóra og mannauðsstjóra er falið að skila tillögum til borgarráðs.

Tillögurnar eiga að miða að markmiðum forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar sem kveður á um að ekkert barn eða unglingur í Reykjavík eigi að þola einelti. Að allar borgarstofnanir hafi virkar viðbragðsáætlanir. Þá á að móta ferli og viðbrögð borgarinnar þegar eineltisáætlanir stofnana borgarinnar bregðast.

„Samkvæmt nýjustu foreldrakönnun menntasviðs segjast 21% foreldra barn sitt hafa orðið fyrir einelti í skólanum, 36% foreldra voru frekar eða mjög ósátt við hvernig tekið var á málinu. Allir foreldrar voru einnig spurðir hvort þeir vissu til þess að komið hefði upp eineltismál í skóla barna þeirra sem þeir myndu eftir - tæp 58% þeirra svöruðu því játandi, 41% þeirra sögðu að fljótt og vel hefði verið tekið á málinu, 36% sögðu „vel en ekki nógu fljótt“ og 22,6% sögðu einfaldlega að skólinn hefði ekki tekið á málinu,“ sagði Oddný Sturludóttir, borgarráðsfulltrúi Samfylkingarinnar, á fundinum.
„Í skólastefnu Reykjavíkurborgar er kveðið á um að einelti skuli ekki liðið í skólum borgarinnar. Allir skólar setja sér eineltisáætlun eða eru með hina viðurkenndu áætlun OLWEUS. Samkvæmt foreldrakönnun er misbrestur á því að þær séu nægilega virkar og því er mikilvægt að þriðji aðili, á borð við mannréttindastjóra, leggi kalt mat á það hvort viðbragðsáætlanir starfsstöðva borgarinnar bera árangur. Samþykkt tillögunnar er áfangasigur í baráttunni gegn einelti. Þess ber að geta að í öllum rannsóknum á einelti kemur í ljós að það beinist mest gegn börnum foreldra sem eru í lægri tekjuhópum. Því er full ástæða til að skerpa á stefnu borgarinnar og herða á viðbragðsáætlunum gegn einelti nú þegar sýnt er að þrengist um hjá mörgum barnafjölskyldum í borginni,“ sagði Oddný.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert