Stjórnvöld endurskoði ákvörðun um hvalveiðar

Mynd af mótmælunum, sem umhverfisverndarsamtökin hafa sent frá sér.
Mynd af mótmælunum, sem umhverfisverndarsamtökin hafa sent frá sér.

Á bilinu 15 til 20 manns frá fimm umhverfissamtökum mótmæltu hvalveiðum Íslendinga fyrir framan íslenska sendiráðið í London í dag. Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra bauð fulltrúum samtakanna inn á sinn fund þar sem hópurinn afhenti sendiherranum bréf þar sem andstöðu er lýst við veiðarnar. Sögðust þeir vonast til þess að íslensk stjórnvöld muni endurskoða ákvörðunina.

Sverrir útskýrði afstöðu íslenskra stjórnvalda og hlýddi á útskýringar mótmælendanna. „Þeir báru fyrir sig ýmsar skoðanakannanir í Bretlandi þar sem kæmi fram að breskur almenningur myndi vera mjög mótfallinn hvalveiðum okkar. Sömuleiðis myndu margir ekki vilja kaupa íslenskan fisk,“ segir Sverrir í samtali við mbl.is. Hann segir jafnframt að hann muni senda bréfið til íslenskra stjórnvalda í dag.

Mótmælin hafa farið friðsamlega fram en að sögn Sverris eru nú um 10 manns fyrir framan sendiráðið. Fólkið heldur á uppblásnu hvalalíki og þá er a.m.k. einn mótmælenda klæddur í hvalabúning.

Að mótmælunum stóðu samtökin Environmental Investigation Agency (EIA), International Fund for Animal Welfare (IFAW), Whale and Dolphin Conservation Society (WDCS) og World Society for the Protection of Animals (WSPA).

Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra Íslands í London. Úr myndasafni.
Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra Íslands í London. Úr myndasafni. mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert